Skoðun

Að breyta í verki

Sandra Hlíf Ocares skrifar

Árið 2010 var samþykkt breyting á hlutafélagalöggjöfinni sem fól það í sér að hlutafélögum af ákveðinni stærð væri skylt að hafa að minnsta kosti 40% hlutfall hvors kyns í stjórninni. Auðvitað var tilgangur laganna sá að rétta hlut kvenna sem um árabil hafa borið skertan hlut frá borði hvað varðar ábyrgðarstöður, hvort sem er í viðskiptum eða stjórnmálum.

Um það er ekki deilt, né það að æskilegt sé að leiðrétta þetta sögulega óréttlæti.

Hættan við löggjöf af þessu tagi er þó sú að áhrifafólk líti á skilyrði um kynjakvóta sem einhvers konar box til að haka í. Í tilfelli kynjakvóta í stjórnum hefur birtingarmyndin gjarnan orðið sú að leita þarf logandi ljósi að konum til að bjóða sig fram til stjórnarkjörs. Í slíku umhverfi vill bregða við að ávallt sé litið til sömu kvennanna. Þeirra sem eru á réttum aldri, hafa réttu samböndin og réttu „reynsluna“.

Gallinn er bara sá að ef einungis er litið til þessara mælikvarða er búin til óyfirstíganleg hindrun gagnvart eðlilegri endurnýjun. Hvernig á annars að öðlast þessa margumtöluðu reynslu þegar tækifærin eru af svo skornum skammti?

Nú hafa í mörgum félögum verið settar á laggirnar tilnefningarnefndir sem að einhverju leyti auka þessi tækifæri kvenna til að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Tilgangur nefndanna er að auka faglegt mat á hæfni þeirra sem bjóða sig fram til stjórnarsetu sem og að leggja til bestu samsetningu stjórnar út frá fyrir fram skilgreindum mælikvörðum.

Þessar nefndir verða vonandi til þess að opna dyr fyrir fleiri aðila að koma að borðinu í stjórnarkjörum. Til þess að slíkar nefndir njóti trúverðugleika og þjóni tilgangi sínum þurfa þær að skila frá sér vinnu sem er raunverulega rökstudd með tilliti til bestu samsetningar stjórnar með hagsmuni allra hluthafa að leiðarljósi. Reynslan mun vonandi sýna okkur að þessar nefndir þjóni raunverulega tilgangi sínum en verði ekki enn eitt boxið til að tikka í.

Annað atriði má svo nefna, sem stendur okkur konum nær að leiðrétta, og það er sú staðreynd að við konur mættum vera duglegri við að bjóða fram krafta okkar til stjórnarsetu. Hafa dug og þor til að vera dæmdar af verðleikum okkar og hæfni.

Þannig breytum við kerfinu, og þeirri kerfislægu hugsun að þátttaka kvenna í stjórnum sé einfaldlega box til að tikka í. Það er beinlínis nauðsynlegt að samkeppni sé um stjórnarstöður meðal kvenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×