Skoðun

Þriggja metra skítaskán

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Vinkona mín hér í London vandi dóttur sína af bleiu ekki alls fyrir löngu. Nýverið eignaðist vinkonan son. Breytt heimsmynd fór fyrir brjóstið á þeirri stuttu. Hún var ekki lengur þungamiðja veraldarinnar heldur hafði móðir hennar nú öðrum hnöppum að hneppa – aðra rassa að skeina.

Vinkona mín sat í sófanum og gaf syni sínum brjóst þegar dóttirin bar upp kröfu: „Mamma, komdu að leika við mig.“

„Ekki strax. Litli bróðir er að borða.“

Málamiðlun var óásættanleg. Sú stutta dró sig í keng, varð eldrauð í framan og með kreppta hnefa kúkaði hún í buxurnar.

Margra vikna herferð var hafin. Í hvert sinn sem móðirin brást ekki við óskum stúlkunnar strax gerði sú yngri í brækurnar.

Eitt sinn voru móðir og börn stödd úti á róló. Stelpan klifraði upp þriggja metra langa rennibraut á meðan mamman sat á bekk og gaf bróður hennar brjóst.

„Mamma, komdu að renna með mér,“ hrópaði stelpan þar sem hún stóð efst í rennibrautinni.

„Ekki strax.“

Það þurfti ekki að spyrja að því. Sú stutta dró sig í keng. Mamman vissi samstundis hvaða skilaboð biðu hennar í brókum dótturinnar. En dóttirin hafði fleira til málanna að leggja. Hún settist niður. Því næst þaut hún niður rennibrautina á rassinum. Eftir endilangri brautinni lá þriggja metra löng skán.

Móðirin rauk upp. Skömmustuleg skreið hún eftir rennibrautinni og þurrkaði burt ummerki óánægju dóttur sinnar með blautþurrkum á meðan róló-gestir horfðu á.

Dóttir vinkonu minnar er ekki sú eina hér í Bretlandi sem situr í skítnum.

Corbyn með matvinnsluvél

Brexit-raunir Breta náðu hámarki í vikunni. Útgöngusamningur Theresu May var kolfelldur í breska þinginu. Bretar eru í djúpum skít.



Útganga Breta úr Evrópusambandinu er einn sjálfhverfasti gjörningur síðan Narkissos sá spegilmynd sína í vatnsfleti og varð svo ástfanginn að hann sat og glápti á sjálfan sig uns hann veslaðist upp og dó. Þetta hófst allt á því að veikgeðja leiðtogar Breska íhaldsflokksins lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu til að verja eigið fylgi gegn uppgangi and-Evrópuflokksins UKIP. Og enn snýst Brexit um Íhaldsflokkinn. Furðufugla-armur flokksins heimtar „hart Brexit“ og leiðir heila þjóð, blindur eftir áratuga langt hugmyndafræðilegt runk, fram af klettabrún sem hann lofar að endi í háttvísum Downton Abbey þætti.

Ekki er stjórnarandstaðan minna upptekin af eigin spegilmynd. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, heldur að hann sé staddur í sögunni um Salómon konung sem tekur á móti tveimur konum er báðar segjast vera móðir sama barns. Þegar konungur, til að kanna móðurást kvennanna, leggur til að hann höggvi barnið í tvennt réttir Corbyn kóngi matvinnsluvél: „Gerðu það sem þú vilt við þetta barn svo lengi sem boðað verður til kosninga.“ Evrópusinnar allra flokka sparka loks vígreifir í spilaborgina hrópandi „rasistar, rasistar“, á barmi þess að tryggja að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði hunsuð. Í leiðinni renna þeir stoðum undir þá kenningu að allt það fólk sem sagðist hafa kosið Brexit vegna þess að því fannst það utangátta í samfélagi sem stýrt er af alls ráðandi elítu, sama hvernig kosningar fara, var kannski ekki haldið ofsóknaræði eftir allt saman.

Veröld sem aldrei var

Dóttir vinkonu minnar kúkaði í buxurnar í baráttu fyrir fortíð sem aldrei var og framtíð sem aldrei yrði; veröld þar sem sólin og móðir hennar snerust kringum hana eina. Það skipti ekki máli þótt allir sætu í skítnum – hún sjálf, móðir hennar, hinir krakkarnir á rólónum. Óþægindin voru ásættanleg fórn fyrir ástina á eigin spegilmynd.

Stjórnmálamenn Bretlands eru eins og smábarn sem kúkar á sig. Þeir munu sitja með okkur hinum í skítnum. En þeir eru of uppteknir við að dást að eigin spegilmynd til að taka eftir því.

Sú stutta er komin aftur í bleiu. Ef aðeins væri hægt að setja stjórnmálamenn í bleiu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×