Skoðun

Gleðilegt ár!

Dagur B. Eggertsson skrifar
Á síðasta degi ársins getum við horft stolt til baka og hlakkað til komandi árs í Reykjavík. Borgin er að vaxa og dafna á öllum sviðum. Þriðja árið í röð mun rekstur borgarinnar skila afgangi. Þar skipta vel heppnaðar björgunaraðgerðir hjá Orkuveitunni lykilmáli en ekki síður ábyrgur rekstur borgarsjóðs. Vegna bættrar stöðu höfum við aukið fjárveitingar til skóla- og velferðarmála umtalsvert, fjármagnað nýja menntastefnu og framþróun í þjónustu við börn, atvinnulíf, eldri borgara og fatlað fólk.

Aldrei hafa verið fleiri íbúðir í byggingu í borginni. Til viðbótar við þær fjölmörgu sem eru að koma á sölumarkað bætast við á þriðja þúsund íbúða sem reistar eru í samvinnu við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög, auk hagkvæmra íbúða fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Þessi verkefni munu hafa afgerandi, jákvæð áhrif á húsnæðis- og leigumarkaðinn og koma mjög til móts við marga.

Komandi ár verður lykilár í jákvæðri umbreytingu borgarinnar. Við sjáum Hafnartorg og Austurhöfn taka á sig mynd. Fjölda uppbyggingarreita við Hverfisgötu mun ljúka og endurnýjun Hlemmtorgs er næst á dagskrá. Stærstu fjárfestingarverkefni borgarinnar eru skóli, menningarmiðstöð og sundlaug í Úlfarsárdal, nýjar leikskóladeildir og íþróttamannvirki fyrir ÍR í Breiðholti. Uppsteypa á nýju hverfi á Hlíðarenda verður líka langt komin og nýtt hverfi í Vogbyggð komið af stað. Framtíðarsýn og rammaskipulag fyrir Borgarlínu frá Hlemmi austur á Ártúnshöfða og suður á Kársnes mun líta dagsins ljós, ásamt því að skipulag vegna Miklubrautar í stokk fer af stað.

Fyrstu stórmyndirnar verða líklega festar á filmu í kvikmyndaverinu í Gufunesi, frumkvöðlasetrið Gróska rís í Vatnsmýrinni, Hús íslenskunnar á Melunum og langþráður meðferðarkjarni Landspítalans við Hringbraut. Skipulagssamkeppni og uppbygging á nýrri samgöngumiðstöð á svæði BSÍ mun einnig marka tímamót. Þannig mætti áfram telja. Borgir þróast í samvinnu borgarbúa, borgaryfirvalda og öflugs og fjölbreytts atvinnulífs. Við erum sannarlega að þróa kraftmikla, skemmtilega og fjölbreytta lífsgæðaborg í Reykjavík, borg fyrir fólk. Takk fyrir samstarfið 2018 og gleðilegt ár 2019!




Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×