Enski boltinn

Guardiola veit hvað þarf að gera til að vinna Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola segist vita hvernig hann á að hafa betur gegn Klopp
Guardiola segist vita hvernig hann á að hafa betur gegn Klopp vísir/getty
Pep Guardiola segist vita hvað hans leikmenn þurfa að gera til þess að verða fyrsta liðið sem hefur betur gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Manchester City mætir Liverpool í kvöld í leik sem sumir hafa sagt ráði úrslitum um hver verður Englandsmeistari.

Liverpool og Manchester City byrjuðu bæði tímabilið mjög vel og varð fljótt ljóst að þetta yrðu liðin sem myndu berjast um titilinn, þó önnur lið gætu mögulega blandað sér þar inn. City átti svo erfiðar vikur í desember, tapaði þremur leikjum, á meðan Liverpool hélt áfram að vinna.

Jurgen Klopp og hans menn mæta á Etihad völlinn með sjö stiga forskot á Manchester City.

„Ef við töpum þá verður það því þeir voru betri og við lélegri,“ sagði pollrólegur Guardiola í viðtali við Sky Sports.

„En ég veit að strákarnir eru með sjálfstraust. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir þurfa að gera.“

Guardiola hefur þó ekki gengið neitt sérstaklega vel gegn Jurgen Klopp, hann hefur tapað átta af fimmtán leikjum sínum gegn Klopp.

„Það er mikil ánægja að fá að spila svona leiki. Þessir leikir eru ástæðan fyrir því að maður er í þessu, til þess að sjá hvað við getum gert á stærsta sviðinu umkringdir okkar stuðningsmönnum.

Leikur Manchester City og Liverpool hefst klukkan 20:00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×