Enski boltinn

Desember var algjör draumur fyrir Liverpool og hér eru sönnunargögnin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman að vera stuðningsmaður Liverpool í desember. Hér fagnar Mohamed Salah marki Xherdan Shaqiri á móti Manchester United.
Það var gaman að vera stuðningsmaður Liverpool í desember. Hér fagnar Mohamed Salah marki Xherdan Shaqiri á móti Manchester United. Getty/Clive Brunskill
Liverpool spilar sinn fyrsta leik á árinu 2019 í kvöld þegar lærisveinar Jürgen Klopp heimsækja Englandsmeistara Manchester City á Ethiad. Stuðningsfólk Liverpool fékk nóg af jólagjöfum í síðasta mánuði ársins.

Desember var nefnilega algjör draumur fyrir Liverpool en liðið vann alla sjö deildarleikina og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í jólamánuðinum.

Liverpool skoraði 24 mörk í 8 leikjum í desember og markatalan var 21 mark í plús enda fékk liðið aðeins á sig þrjú mörk í þessum leikjum.

Liverpool hóf mánuðinn í 2. sæti deildarinnar þar sem liðið var tveimur stigum og fjórtán mörkum á eftir Manchester City. City-liðið var með 35 stig og 35 mörk í plús (40-5) en Liverpool var með 33 stig og 21 mark í plús (26-5).

Liverpool endaði aftur á móti mánuðinn í fyrsta sæti deildarinnar með sjö stiga forskot og tveggja marka forskot á Manchester City. Liverpool var með 54 stig og 40 mörk í plús (48-8) en City-liðið var með 47 stig og 38 mörk í plús (54-16).

Liverpool fékk sex stigum meira en næstu lið í desember (21 stig) en það voru Tottenham, West Ham og Chelsea (15 stig).

Liverpool skoraði líka flest mörk (22) og fékk á sig fæst mörk (3) allra liða í desember. Manchester United skoraði 21 mark og Chelsea fékk aðeins fimm mörk á sig.

Liverpool rifjar upp þennan frábæra mánuð með markasyrpu og fésbókarsíðu sinni sem má sjá hér fyrir neðan.



Leikir Liverpool í desembermánuði:

1-0 sigur Everton (Origi)

3-1 sigur á Burnley (Milner, Firmino, Shaqiri)

4-0 sigur á Bournemouth (Salah 3, sjálfsmark)

1-0 sigur á Napoli (Salah)

3-1 sigur á Manchester United (Shaqiri 2, Mané)

2-0 sigur á Wolves (Salah, Van Dijk)

4-0 sigur á Newcastle (Lovren, Salah, Shaqiri, Fabinho)    

5-1 sigur á Arsenal (Firmino 3, Mané, Salah)

Leikur Manchester City og Liverpool hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×