Enski boltinn

Draumur Pochettino að vinna Meistaradeildina með Tottenham

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino. vísir/getty
Mauricio Pochettino segir hans helsta markmið vera að vinna Meistaradeild Evrópu eða Englandsmistaratitil með Tottenham.

Tottenham mætir Tranmere Rovers, sem spilar í ensku D-deildinni, í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld. Pochettino ætlar ekki að setja eins mikið púður í bikarkeppnina eins og deildina eða Meistaradeildina.

„Ég vil vinna Meistaradeildina með Tottenham, eða Englandsmeistaratitilinn. Auðvitað viljum við vinna titla og bikarinn er titill en hann mun ekki setja Tottenham á hærra stig,“ sagði Pochettino.

„Að vinna deildarbikarinn eða FA bikarinn en enda um miðja deild, þá hefði maður verið rekinn. Jafnvel eftir að vinna tvo, þrjá bikartitla.“

Argentínumaðurinn hefur verið sterklega orðaður við langtímastöðuna hjá Manchester United en honum hefur verið bannað að ræða það mál.

Leikur Tranmere og Tottenham hefst klukkan 19:45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×