Enski boltinn

Solskjær fundar með Woodward vegna leikmannakaupa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær Getty/Matthew Peters/Man Utd
Ole Gunnar Solskjær mun eiga fund með framkvæmdarstjóra Manchester United Ed Woodward og ræða möguleg kaup í janúar.

Solskjær er aðeins bráðabirgðastjóri Manchester United og stýrir liðinu aðeins út tímabilið en hann mun þó hafa sitt að segja um hvaða leikmenn félagið fær til sín í janúarglugganum, ef einhverja.

„Ég er viss um að þeir eru með einhverjar áætlanir fyrir félagsskiptagluggan, félagið hefur væntanlega verið með áætlun síðan í sumar og árið þar á undan,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag.

„Skipulagið á þessu félagi er ótrúlegta gott svo ég er ekki í vafa um að þeir séu með nöfn á blaði.“

„Ég er hér til þess að hafa skoðun og ég mun setjast niður með Ed ef það er eitthvað í gangi, en ég er hér núna til þess að vinna með þeim leikmönnum sem við höfum.“

Solskjær gæti ekki hafa byrjað betur á Old Trafford, hann hefur unnið fjóra fyrstu leikina. Næsta skref er leikur gegn Reading í ensku bikarkeppninni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×