Skoðun

Nei, ég vann ekki í lottóinu

Helgi Tómasson skrifar
Mér er sagt að fasteignamat húss míns í Reykjavík sé nú 68 milljónir króna og verði 79 á næsta ári. Er ég þá orðinn 11 milljónum ríkari? Það er óvarlegt að treysta því. Að minnsta kosti væri galið að ákveða aukaeyðslu byggða á þessum 11 milljónum. Þetta gera þó sveitarfélög sem líta svo á að skattstofn þeirra hafi stækkað sem þessu nemur, aukið skattheimtu og varið þeim fjármunum í rekstur. Það er fjarstæðukennt að sveitarstjórnum sé leyft að hækka skatta með sjálfvirkum hætti á tímum hækkandi fasteignaverðs og nota tekjuaukann til að réttlæta aukin útgjöld. Bankar freistast til að lána meira vegna dýrari eigna og kaupendur húsnæðis taka hærri lán.

Það er í tísku að tala um ójöfnuð og samkvæmt þessu hefur munurinn á mér og þeim sem taka lán og kaupa fasteign aukist. Þetta er þó enn sama húsið og ég átti í byrjun árs, þjónusta sveitarfélagsins við húsið óbreytt og tekjur mínar hafa ekki aukist til að standa skil á fasteignaskattinum. Skattbyrði mín er því þyngri. Ég er ekki einn í þessu. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja stendur frammi fyrir ófyrirsjáanlegum duttlungakenndum skattahækkunum vegna óheppilegra reglna um útreikning fasteignaskatta.

Það er fráleitt að nota sveiflukennt eignaverð sem skattstofn. Eignarskattar eru óskynsamlegir og langflest Evrópuríki hafa afnumið þá. Frakkar voru lengi síðustu þrjóskupúkarnir. Danir og Svíar hafa, eftir miklar eignaverðshækkanir, afnumið matsvirði eigna sem skattstofn í fasteignagjöldum. Svíar hafa fasta hámarksupphæð til að standa straum af kostnaði sveitarfélaga við fasteignaeigendur og Danir nota matsvirði frá 2001 eða 2002. Regla Dana er kannski ekki til fyrirmyndar en hún er alla vega fyrirsjáanleg. Sumir stjórnmálamenn vilja taka til í skattkerfinu og gera það einfaldara og skilvirkara. Nú er upplagt tækifæri fyrir þá að útrýma eignatengdum sköttum í eitt skipti fyrir öll og binda það í stjórnarskrá.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×