Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - KR 76-99 │Vandræðalaust hjá meisturunum gegn nýliðunum

Guðlaugur Valgeirsson í Smáranum skrifar
Jón Arnór Stefánsson
Jón Arnór Stefánsson vísir/bára
Breiðablik tók á móti KR í kvöld í 11.umferð Domino’s deild karla en leikurinn fór fram í Smáranum. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik keyrðu KR-ingar yfir Blikana og sigruðu að lokum nokkuð örugglega, 76-99.

Leikurinn í kvöld byrjaði mjög rólega en það voru KR-ingar sem byrjuðu betur en þeir komust í 7-0 snemma leiks áður en Blikarnir tóku smá kafla og jöfnuðu í 10-10. KR-ingar tóku þá við sér og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 25-29.

Það var sama upp á teningnum í byrjun annars leikhluta en bæði lið voru frekar rólega og ekki að hitta vel. Blikarnir settu svo tvo þrista í röð og þá fékk Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR nóg og tók leikhlé. Eftir leikhléið var jafnt á öllum tölum þar til að kollegi hans hjá Blikum, Pétur Ingvarsson tók leikhlé þegar 2 mínútur voru eftir. KR liðið keyrði yfir Blikana það sem eftir lifði hálfleiksins og þeir leiddu 53-44 í hálfleik.

Ingi var samt sem áður ekki sáttur með spilamennsku síns liðs og hann hefur sagt einhver vel valin orð í hálfleik því KR liðið hélt bara áfram í byrjun þriðja leikhluta og þeir stungu Blikana af. Þeir voru komnir 20 stigum yfir þegar aðeins 6 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Blikarnir reyndu að laga stöðuna en tókst það ekki. Staðan 56-79 að loknum þriðja leikhluta.

Það var aldrei spurning eftir þetta hvort liðið myndi vinna þennan leik en í fjórða leikhluta var Ingi Þór mikið að rótera liðinu og leyfa öllum að spila á meðan Blikarnir reyndu að minnka muninn en komust hvergi áleiðis. KR-ingar fögnuðu að lokum nokkuð þægilegum sigri, 76-99.

Af hverju vann KR?

Einfaldlega meiri gæði í KR liðinu, stóru mennirnir þeirra gjörsamlega áttu nánast öll fráköst og þeir skoruðu nánast þegar þeir vildu undir körfunni.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og ég sagði áður þá voru það stóru mennirnir í KR sem voru bestir í kvöld en Julian Boyd skilaði 39 stigum og 13 fráköstum á meðan Kristófer Acox var ekki langt á eftir með 24 stig og 14 fráköst og heila 8 stolna bolta!

Hjá Blikum var Christian Covile stigahæstur eins og svo oft áður en hann skoraði 18 stig og bætti við það 11 fráköstum. Snorri Vignisson kom næstur með 13 stig og 8 fráköst.

Hvað gekk illa?

Fráköstin hjá Blikunum. Það er rosalega erfitt að vinna körfuboltaleik þegar þú ert með 42 fráköst á móti 65 hjá KR liðinu. Að auki voru lykilmenn Blika ekki alveg nógu góðir að þessu sinni og eftir að hafa hitt ágætlega í fyrri hálfleik voru þeir í miklu basli í þeim seinni.

Hjá KR-ingum er athyglisvert að sjá að Dino Stipcic spilaði ekki nema rétt rúmar 16 mínútur og skoraði ekki eina einustu körfu. KR verður að fá meira frá honum þar að segja ef hann verður áfram hjá liðinu.

Hvað gerist næst?

Bæði lið fá gott jólafrí en næsta umferð verður ekki fyrr en eftir rúmlega 2 vikur. Þá taka Blikar á móti Grindavík á meðan KR-ingar fara í Borganes og mæta þar Skallagrím.

Ingi Þór: Ég gæti hent mér í búning

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR var sáttur með sigur liðsins á Breiðablik en var þó ekki nógu ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld.

„Alltaf ánægður með að vinna en ég er ekki ánægður með það hvernig við spilum, þetta var svona eins og frasinn just another day at the office. Um leið og við gefum þeim smá skott þá fórum við niður á hælana og Breiðablik eru þannig að ef þú mætir þeim ekki strax þá negla þeir þristum í andlitið á þér.”

„Þeir skora níu þrista í fyrri hálfleik og ég var ósáttur með það. En kredit á mína menn, við gerðum vel það sem við ætluðum að gera og við komum til að sækja 2 stig og það er allt sem skiptir máli.”

Hann var ánægður með varnarleikinn í seinni hálfleik og hvernig þeir náðu að slökkva í Blikaliðinu.

„Við náðum að binda saman nokkuð margar varnir í byrjun seinni, þeir skora ekki nema 5 stig á fyrstu 6 mínútunum og þá var kominn munur sem þeir voru ekkert að fara vinna niður.”

„20 stig er ekki mikið í körfubolta og lið sem spilar svona hratt eins og Breiðablik og hvernig þeir skjóta þá getur þetta breyst hratt en vel gert hjá mínum mönnum að halda einbeitingu. Við vorum með mistilbúna menn í kvöld og það opnaði tækifæri fyrir aðra sem stóðu sig vel.”

Dino Stipcic spilaði frekar lítið miðað við meðaltalið hans í vetur en hann var þó alveg tilbúinn í kvöld.

„Dino var alveg tilbúinn, Jón hefði kannski átt að hvíla í kvöld en hann spilaði og skilaði fínum varnarleik en við erum ein heild og Julian og Kristó voru mjög góðir en bakverðirnir í smá basli.”

Hann er sáttur með seinustu leiki og stöðuna á liðinu.

„Þetta er mjög raunhæf staða miðað við breytingarnar á KR liðinu frá því í fyrra. Ekki bara nýir þjálfarar, margir lykilmenn farnir og við erum ennþá að búa til og við erum að finna okkar einkenni. Hvað erum við að gera og hvað ætlum við að gera. Við þurfum að leggjast yfir þetta og skoða hvað á að vera okkar einkenni.”

Ingi sagði að hann sæi ekki fram á miklar mannabreytingar en grínaðist þó með það að hann gæti hent sér í búning enda í toppformi.

„Ég gæti hent mér í búning, er í toppformi. Besta formi lífs míns. Við skoðum hvað gerist með útlendingana. Ég sest niður með stjórninni og við metum stöðuna, fyrri partinn og hvað við erum að gera og ætlum að gera. Það er ljóst að við getum ekki verið yfirhlaðnir.”

Hann var mjög sáttur með Julian Boyd í kvöld sem svaraði ákveðnum gagnrýnisröddum en hann hefur verið í basli undanfarið.

„Með fullri virðingu fyrir Breiðablik þá eru þeir veikir undir körfunni og Julian nýtti sér það vel. Á móti svæðisvörn geta menn eins og hann gert mikinn usla,” sagði Ingi að lokum.

Pétur: Sumir þyrftu kannski að bæta á sig kílóum

Pétur Ingvarsson þjálfari Blika var svekktur í leikslok eftir tap sinna manna gegn KR en eftir nokkuð jafnan fyrri hálflleik skildu liðin að.

„Það gekk ekki alveg nógu vel sóknarlega hjá okkur, við erum alltaf að reyna skora 100 stig, þá hefði þetta verið leikur en það voru of mörg skot sem rötuðu ekki ofan í.

Hann sagði að það væri skiljanlegt að liðið tapi frákastabaráttunni enda með nokkuð lágvaxið lið.

„Við erum litlir og erum kannski ekki nógu öflugir varnarlega. Við þurfum að treysta aðeins meira á sóknarleikinn og þess vegna erum við að reyna keyra upp hraðann en KR gerði vel að drepa það niður og því fór sem fór og við náðum ekki að gera eins og í byrjun.“

Hann sér ekki fram á mannabreytingar á næstunni.

„Ég sé ekki fram á breytingar fyrir næsta leik nema þá að leikmenn komi aðeins þyngri eftir jólin.”

En í framhaldi af því segist hann ekki hafa sett neinar reglur varðandi ofát um jólahátíðina.

„Neinei ekkert þannig séð varðandi mataræði. Þeir mega sumir alveg bæta á sig nokkrum kílóum svo þeir verða ekki undir í baráttunni en leikmannamál verða eins. Við treystum á þennan hóp nema það verði einhver meiðsl þá kannski breystist eitthvað.”

Pétur sagði að lokum að hann væri á vissan hátt sáttur með spilamennsku liðsins í vetur þrátt fyrir aðeins 1 sigur.

„Já, spilamennskan hefur oft verið þokkaleg en niðurstaðan er kannski ekki það sem við vorum að vonast eftir. Aðeins undir pari miðað við það sem við stefnum að en við vissum að þetta yrði erfitt og þetta mun verða erfitt. Við höfum fengið smá eldskírn eftir fyrri hlutann. Hvað ætlum við að bæta og úr hverju erum við gerðir,” sagði Pétur að lokum.

Kristófer: Það er ennþá desember

Kristófer Acox var mjög sáttur með sigur liðsins á Breiðablik í kvöld en þeir sigldu fram úr Blikum eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.

„Seinni hálfleikurinn var allt annar en sá fyrri og 2 stig inn í jólafrí þannig ég er mjög sáttur.”

Hann sagði að það væri mjög gott að taka þrjá sigra í röð eftir vond tvö töp í röð þar á undan.

„Já auðvitað erum við sáttir, það munar alltaf um að vinna og þetta er búið að vera mjög erfitt hjá okkur sérstaklega síðustu 5-6 leiki en það er ennþá desember eins og sumir segja og við þurfum aðeins að slípa okkur saman og taka til og vonandi verðum við betri eftir áramót.”

„Við vissum það farandi inn í leikinn að þeir eru ekki með mikla hæð þannig við reyndum að nýta okkur það en við höfum ekki verið að nýta það nógu vel í undanförnum leikjum og það tókst óvenju vel í dag. Blikarnir eru með gott lið þrátt fyrir litla hæð og spila fast en við fundum okkur vel í dag,” sagði Kristó að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira