Innlent

Dúxaði með 9,1 í meðaleinkunn

Birgir Olgeirsson skrifar
Dúx var Alexandra Líf Arnarsdóttir, með 9,1 í meðaleinkunn.
Dúx var Alexandra Líf Arnarsdóttir, með 9,1 í meðaleinkunn. Flensborgarskólinn
72 stúdentar brautskráðust frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði á fimmtudag. Nemendur brautskráðust af félagsvísinda- raunvísinda-, viðskiptafræði- og opinni námsbraut. Tólf þessara nemenda voru á íþróttaafrekssviði. Dúx var Alexandra Líf Arnarsdóttir, með 9,1 í meðaleinkunn. Kór skólans söng við athöfnina, undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg.

Að auki sungu þrjár nýstúdínur tvö lög og fengu leynigest með sér, aðstoðarskólameistarann sjálfan.

Í ávörpum sínum lögðu skólameistari og aðstoðarskólameistari áherslu á að stúdentarnir veldu sér ábyrgar og góðar leiðir en jafnframt að þetta unga fólk léti hjartað ráða för.

Stúdentahópurinn.Flensborgarskólinn
Kolbeinn Sveinsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd nýstúdenta og tilkynnti m.a. að peningum hefði verið safnað til að færa Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Við athöfnina var afhentur styrkur úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hlaut Þorsteinn Kristinsson sem stundar nám í Lundi í Svíþjóð. Þorsteinn Kristinsson stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði á árunum 2004 til 2008 og útskrifaðist með stúdentspróf á félagsfræði- og náttúrufræðibraut. Síðan þá hefur Þorsteinn lokið BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc námi í Asíufræðum frá Lundarháskóla í Svíþjóð, auk þess að nema kínversku við National Taiwan Normal University í Taívan.

Þá hefur Þorsteinn einnig stundað rannsóknir í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands og kom hluti þeirrar vinnu nýlega út í formi bókar um alþjóðastjórnmálafræðikenningar smáríkja þar sem Þorsteinn er meðhöfundur að þremur köflum. Sú bók nefnist Small States and Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs og er gefin út af Routledge útgáfunni.

Síðustu tvö ár hefur Þorsteinn lagt stund á doktorsnám í alþjóðastjórnmálum við stjórnmálafræðideild Lundarháskóla, með sérstaka áherslu á „rísandi veldi“ í alþjóðakerfinu og svæðissamruna í Austur Asíu. Sem hluta af þeim rannsóknum mun Þorsteinn halda til Taívan í byrjun árs 2019 og dvelja sem gestafræðimaður við National Taiwan University í Taipei. Til þessa verkefnis hlaut hann svokallaðan „Taiwan Fellowship“ frá utanríkisráðuneyti Taívan sem er ætlað að veita erlendu fræðafólki brautargengi til slíkra dvala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×