Innlent

560 milljóna auka­fjár­veiting til heil­brigðis­stofnana á lands­byggðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni um 560 milljóna króna viðbótarfjárveitingu fyrir rekstrarárið 2018.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, þar sem segir að aukningin nemi að jafnaði um þrjú prósent af heildarfjárveitingu stofnananna á árinu.

„Aukafjárveitingunni er fyrst og fremst ætlað að mæta halla á rekstri stofnananna sem að einhverju leyti stafar af veikleika í rekstri en má einnig rekja til ófyrirséðra útgjalda, t.d. vegna mönnunarvanda og veikinda starfsfólks sem kallar á meiri yfirvinnu og þar með aukinn kostnað.

Ákveðnar breytingar eru fyrirhugaðar á fjármögnun heilbrigðisstofnana til lengri tíma litið þar sem áhersla verður lögð á að tengja framlög í auknum mæli við árangur. Stefnt er að  því að innleiða sambærilegt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslusvið stofnananna og notað hefur verið í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu frá því um mitt ár 2017 og hefur þótt gefa góða raun. Einnig er áformað að breyta fjármögnun á hjúkrunarsviðum stofnananna og taka upp daggjaldagreiðslur líkt og á hjúkrunarheimilum þar sem fjárhæðirnar taka mið af hjúkrunarþyngd íbúanna,“ segir í tilkynningunni.

Aukin framlög til heilbrigðisstofnana skiptast sem hér segir:

  • Heilbrigðisstofnun Vesturlands, 98,8 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 80 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 130 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Austurlands, 70 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 110 m.kr.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 71,1 m.kr.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×