Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Við verðum í beinni útsendingu frá Kirkjubæjarklaustri í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem aðgerðarstjórn fundar vegna slyssins á brúnni yfir Núpsvötn í morgun. Tveir fullorðnir og eitt ungt barn létust þegar bíll fór niður af brúnni. Alls voru sjö breskir ríkisborgarar af indverskum uppruna í bílnum og voru fjórir fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús í Reykjavík. Um var að ræða bræður sem voru í ferðalagi á Íslandi með fjölskyldur sínar. Forstöðumaður hjá Vegagerðinni segir úrbætur á brúnni nauðsynlegar sem allra fyrst en frá árinu 2000 hafa þar orðið fjórtán umferðarslys.

Við ræðum einnig við stjórnarformann Gray Line, eins stærsta rútufyrirtækis landsins, sem ráðist hefur í mikla endurskipulagningu á rekstri á síðustu mánuðum með uppsögnum 32 starfsmanna og sölu á átta rútum. Hann merkir samdrátt í ferðaþjónustunni þar sem kaupgeta erlendra ferðamanna hafi minnkað.

Þá skoðum við nýja heita laug á Langasandi á Akranesi og ræðum við konu sem átti frumkvæði að því að skapa sérstök skotsvæði fyrir flugelda í miðborg Reykjavíkur.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×