Enski boltinn

Klopp upp á vegg í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og Mohamed Salah.
Jürgen Klopp og Mohamed Salah. Vísir/Getty
Jürgen Klopp þarf að stilla sína leikmenn rétt af í kvöld ætli Liverpool að vera í pottinum þegar dregið verður í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Liverpool fær ítalska félagið Napoli í heimsókn á Anfield og þarf að vinna með tveggja marka mun til að komast upp fyrir Ítalana og fara áfram.

Það er búist við klassísku Evrópukvöldi á Anfield en í aðdraganda leiksins var Jürgen Klopp sjálfur málaður upp á vegg í Liverpool borg.

Jürgen Klopp hefur sett saman frábært lið í Liverpool, lið sem komst upp á topp ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi og hefur aldrei byrjað tímabil betur í ensku úrvalsdeildinni.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig listamaðurinn málaði þessa mögnuðu mynd af Jürgen Klopp sem tekur næstu því allan húsgaflinn í Baltic hverfinu í Liverpol.





Baltic hverfið í Liverpool er hér eftir örugglega á listanum yfir staði sem stuðningsfólk Liverpool heimsækir á ferð sinni um borgina.

Jürgen Klopp settist í stjórastólinn hjá Liverpool liðinu í október 2015 og er því búinn að vera knattspyrnustjóri félagsins í rúm þrjú ár.

Liverpool endaði í áttunda sæti í ensku úrvalsdeildinni á hans fyrsta tímabili en hefur verið í fjórða sætinu á undanförnum tveimur tímabilum. Nú er Liverpool hinsvegar taplaust á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool er með þrettán sigra og þrjú jafntefli í sextán leikjum og hefur einu stigi meira en ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City. Liverpool er líka eina taplausa liðið í deildinni.





Leikur Liverpool og Napolui hefst klukkan 20.00 í kvöld en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Meistaradeildarmessan með Gumma Ben hefst klukkan 19.30 á Stöð 2 Sport og Meistaradeildarmörkin verða síðan eftir alla leiki kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×