Innlent

Vonast eftir niðurstöðu félagsdóms fyrir áramót

Birgir Olgeirsson skrifar
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, í dómsal í dag.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, í dómsal í dag. Vísir/Vilhelm
Mál Flugfreyjufélags Íslands gegn Icelandair hefur verið lagt fyrir félagsdóm. Málið var tekið fyrir í dag þar sem mótaðilar kynntu sín sjónarmið. Lauk þinghaldinu á áttunda tímanum í kvöld en Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, segist vonast eftir niðurstöðu félagsdóms fyrir áramót. 

Málið varðar ákvörðun Icelandair að banna flugfreyjum að vinna í hlutastarfi hjá flugfélaginu, að undanskildum þeim sem náð hafa 55 ára aldri. Flugfreyjufélagið telur þetta gróft brot á kjarasamningum sem barist hafi verið fyrir í mörg ár.

118 flugfreyjur voru í hlutastarfi hjá Icelandair en flugfélagið bauð þeim að fara í fullt starf, annars yrði þeim sagt upp. Langflestar þáðu það boð en með fyrirvara um niðurstöðu Félagsdóms. Á þessi ákvörðun flugfélagsins að taka gildi um áramótin og vonast Berglind þess vegna eftir niðurstöðu Félagsdóms áður en árið er liðið. 

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair, sagði við Vísi í september að launakostnaður flugfélagsins væri hár í samanburði við fyrirtækin sem væru í samkeppni við Icelandair og bregðast yrði við því. Þess vegna var þessi leið meðal annars farin. 


Tengdar fréttir

Flugfreyjur í áfalli vegna afarkosta Icelandair

Flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi hjá Icelandair hefur verið gert að velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×