Enski boltinn

United staðfesti Solskjær og Phelan

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Norðmaðurinn er mættur aftur á Old Trafford
Norðmaðurinn er mættur aftur á Old Trafford vísir/getty
Manchester United hefur staðfest Ole Gunnar Solskjær sem bráðabirgðastjóra félagsins og í þetta skiptið var ekki um nein mistök að ræða.

Frá því Jose Mourinho var rekinn í gær fóru sögusagnir á flug um hver myndi taka við. Félagið gaf strax út að það ætlaði að ráða bráðabirgðastjóra út tímabilið og taka sér tíma í að ræða framtíðarstjóra félagsins.

Nafn Solskjær kom fljótt upp í umræðunni og á heimasíðu United í gær var Solskjær nefndur sem nýi bráðabirgðastjórinn en það var svo tekið út.

Nú hefur félagið formlega kynnt Solskjær til leiks.



Solskjær þekkir vel til á Old Trafford en hann skoraði 126 mörk í 366 leikjum fyrir félagið á árunum 1996-2007. Frægast þeirra er líklega sigurmarkið gegn Bayern München í uppbótartíma í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 1999.

Síðan Solskjær hætti að spila fótbolta hefur hann snúið sér að þjálfun. Hann stýrði varaliði United árið 2008 en tók svo við Molde í heimalandinu Noregi.

Solskjær er ekki sá eini sem snýr aftur til Manchester því Mike Phelan verður við hlið Norðmannsins.

Phelan spilaði fyrir United í fimm ár og var seinna í þjálfarateymi Sir Alex Ferguson til margra ára. Eftir að Sir Alex hætti hjá United fór Phelan til Norwich City. Hann var síðast í þjálfun hjá Hull City en var rekinn þaðan í janúar 2017.

Solskjær og Phelan njóta einnig aðstoðar Michael Carrick og Kieran McKenna í þjálfarateymi United.

„Manchester United á alltaf stað í hjarta mínu og það er frábært að fá að koma til baka í þessu hlutverki. Ég hlakka til að vinna með þeim hæfileikaríka hópi leikmanna sem við höfum og öllum hjá félaginu,“ sagði Solskjær í tilkynningu á heimasíðu United.










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×