Enski boltinn

Erling Moe mun sjá um Molde á meðan Ole Gunnar er í láni hjá United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Mynd/Heimasíða Molde
Ole Gunnar Solskjær mun fá nokkra mánaða frí frá þjálfun Molde á meðan hann stýrir liði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

Molde segir frá för Ole Gunnar Solskjær til Manchester í yfirlýsingu á heimasíðu sinni og þar kemur einnig fram að Erling Moe muni stýra Molde liðinu þangað til Solskjær kemur til baka.

„Þetta er stórt tækifæri fyrir Molde og mun hjálpa enn frekar við að setja Molde FK á kortið,“ segir Öystein Neerland, framkvæmdastjóri félagsins.

„Það að Manchester United biðji Molde um að fá þjálfarann lánaðan er stór stund og traustyfirlýsing til bæði Ole Gunnars og Molde FK. Við tókum vel í að lána Ole Gunnar og við óskum bæði honum og félaginu góðs gengis,“ sagði Neerland í yfirlýsingunni.





Molde lánar Ole Gunnar til Manchester United en aðeins fram í maí 2019. Ole Gunnar er nýbúinn að gera nýjan samning við norska félagið.

„Maður veit aldrei hvað gerist í fótboltanum,“ er haft eftir Ole Gunnar Solskjær í fréttinni á heimasíðu Molde.

„Þetta er tækifæri sem ég varð að stökkva á. Ég hlakka til að hjálpa Manchester United fram á sumar. Á sama tíma mun ég fylgjast náið með hvað er að gerast heima. Við höfum byggt upp góðan grunn hér  og eftir góðan á endi á síðasta tímabili þá getum við verið bjartsýn á komandi tímabil. Erling, Trond og Per Magne munu skila góðu starfi á meðan ég er í burtu,“ sagði Solskjær.

„Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka félaginu og líka þeim Kjell Inge og Bjørn Rune fyrir að taka svona vel í þetta og óska mér til hamingju að fá að stýra stærsta félagi í heimi,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×