Körfubolti

Snæfell og Keflavík á toppnum en KR fylgir fast á eftir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristen var frábær í kvöld.
Kristen var frábær í kvöld. vísir/ernir
Snæfell er áfram á toppi Dominos-deildar kvenna með Keflavík eftir öruggan sigur á Haukum í Stykkishólmi í kvöld, 75-58. Snæfell fer því inn í nýtt ár á toppnum.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og voru 32-29 yfir er liðin gengu til búnigsherbergja. Heimastúlkur keyrðu svo yfir Haukana í síðari hálfeik og sigurinn að lokum öruggur.

Kristen Denise McCarthy var frábær í liði Snæfells. Hún skoraði 38 stig, tók tólf fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Snæfell er á toppnum með 20 stig eins og Keflavík.

Haukarnir eru í næst neðsta sætinu með sex stig en stigahæst í liði Hauka var LeLe Hardy. Hún gerði 21 stig, tók sautján fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Keflavík hafði betur gegn botnliði Blika, 100-85, í Keflavík í kvöld. Keflavík var einu stigi yfir í hálfleik en góður þriðji leikhluti lagði grunninn að sigrinum.

Brittanny Dinkins gerði 29 stig og tók þrettán fráköst. Að auki gaf hún tíu stoðsendingar. Kelly Faris gerði 29 stig, tók fimmtán fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í liði Blika.

KR hafði betur gegn Skallagrím í hörkuleik í Borgarnesi, 81-74, en heimastúlkur leiddu í hálfleik, 38-33. Öflugur síðari hálfleikur skilaði nýliðunum úr Vesturbænum enn einum sigrinum.

Orla O'Reilly gerði 26 stig og tók tíu fráköst í liði KR en Vesturbæjarliðið er í þriðja sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir toppliðunum.

Skallagrímur er hins vegar í sjötta sæti, heilum sex stigum á eftir úrslitakeppnissæti. Stigahæst í þeirra liði í kvöld var Shequila Joseph með 31 stig og fimmtán fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×