Handbolti

Geggjað mark í Grillinu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur skorar.
Haukur skorar. skjáskot
Fleiri og fleiri mörk eru skoruð í handbolta þar sem að enginn er í marki eftir að flest lið fóru að taka upp á því að taka markvörðinn úr markinu þegar að þau eru einum færri eða jafnvel bara til að spila sjö á fimm í sóknarleiknum.

Þrátt fyrir að markið standi oft á tíðum autt virðist sumum fyrirmunað að setja boltann á milli stanganna og undir slána en mýmörg dæmi hafa sést í Olís-deildinni undanfarin misseri þar sem að leikmenn sem að æfa alla daga hitta ekki markið frá eigin vallarhelmingi.

Haukur Jónsson, markvörður Þróttar í Grill 66-deild karla, næst efstu deild Íslandsmótsins, sendir leikmönnum Olís-deildarinnar skemmtilega sneið á Twitter-síðu sinni þar sem að hann birtir myndband af frábæru marki sínu yfir allan völlinn.

Haukur skoraði markið glæsilega á móti FH U um miðjan nóvember en hann þrumaði þá boltanum yfir allan völlinn með glæsibrag, yfir Sigurð Dan Óskarsson sem var mættur í markið hjá FH.

„Næ því ekki að leikmenn og markmenn í Olís-deildinni hitti ekki á markið yfir völlinn kveðja úr Grill,“ skrifar Haukur við myndbandið og bætir svo við: „Viðurkenni, nokkuð ánægður með þetta mark.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×