Erlent

Fagnar því að geta brosað á nýjan leik

Samúel Karl Ólason skrifar
Cameron Underwood segir lækna hafa gefið sér nýtt líf.
Cameron Underwood segir lækna hafa gefið sér nýtt líf. Getty/Monica Schipper
Cameron Underwood hefur fengið nýtt andlit eftir að hann reyndi að svipta sig líf fyrir tveimur árum. Hann missti nefið, mestan hluta neðri kjálkans, og allar tennur nema eina þegar hann beindi byssu sinni að sjálfum sér en nú segir hann lækna hafa gefið sér nýtt líf.

Underwood fagnar því sérstaklega að geta brosað aftur.

„Ég er svo þakklátur fyrir andlitságræðsluna því hún gefur mér annað tækifæri í lífinu,“ sagði Cameron á blaðamannafundi í gær. „Ég hef getað snúið mér aftur af því sem ég elska að gera, eins og að vera utandyra, spila íþróttir og verja tíma með vinum og fjölskyldu minni.“

Þá sagðist Cameron vonast til þess að fara að vinna á nýjan leik og jafnvel stofna fjölskyldu.

Aðgerð Cameron fór fram í NYU Langone Health Center í New York í janúar. Samkvæmt BBC tók hún 25 klukkustundir og rúmlega hundrað heilbrigðisstarfsmenn komu að henni. Hún var þó ekki opinberuð fyrr en í vikunni.

Frá því fyrsta andlitságræðslan var framkvæmd árið 2005 hafa rúmlega 40 slíkar verið framkvæmdar. Þetta var þriðja slíka aðgerð skurðlæknisins Eduardo D. Rodriguez.



Andlitið sjálft kemur frá hinum 23 ára gamla Will Fisher sem dó í fyrra. Móðir hans, Sally, segist þakklát fyrir dauðsfall sonar síns hafi hjálpað Cameron að öðlast nýtt líf.

„Að fá að vera með í þessu ferli hefur hjálpað mér í gegnum mjög erfitt tímabil,“ sagði Sally. „Ég er ekki viss um að ég hefði lifað fráfall Will af ef Cameron hefði ekki verið til staðar.“

Cameron þakkaði Sally og fjölskyldu Will fyrir gjöf þeirra og sagðist alltaf ætla að heiðra minningu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×