Umfjöllun og viðtöl: Valur - Breiðablik 114-102 | Mikilvægur sigur Vals

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Ragnar Nathanaelsson og félagar í Vali þurfa sárlega á stigum að halda.
Ragnar Nathanaelsson og félagar í Vali þurfa sárlega á stigum að halda. vísir/bára
Valur vann Breiðablik í áttundu umferð Dominos deildar karla í Origo-höllinni í kvöld. Valsmenn hittu svakalega fyrir utan þriggja stiga línuna og sigurinn er að mörgu leyti því að þakka. Sigurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Val í fallbaráttunni en fyrir leik voru liðin saman í fallsætunum með einungis einn sigur.

Bæði lið voru sjóðandi í upphafi leiks. Valsmenn voru að fara inn í teig, draga í sig varnarmenn og opnuðu þannig fyrir skotmönnum. Blikar voru allan leikinn í miklum vandræðum stóru mennina hjá Val en Snorri Hrafnkels var meiddur í kvöld. Blikar voru mikið að skjóta þristum af dripplinu en þeir voru að hita vel úr þessum erfiðu skotum. Staðan eftir leikhluta var 32-28 fyrir Val.

Í miðjum öðrum leikhluta þegar Valur var yfir með einungis sex stigum skiptir Pétur Ingvarsson þjálfari Blika öllu liðinu útaf. Eftir þessa fimmföldu skiptingu vinna Valur leikhlutann 16-8. Valsmenn héldu áfram að hitta vel fyrir utan og finna stór mennina vel undir körfunni. Staðan í hálfleik var 61-47 fyrir Val.

Blikar byrjuðu þriðja leikhluta eins og alla aðra í leiknum með þriggja stiga körfu. Eftir þann þrist fóru Valsmenn hinsvegar af stað og komust mest yfir með 22 stigum. Með tvær mínútur eftir í leikhlutanum tók Pétur leikhlé og skipti yfir í svæðisvörn. Valsmenn skoruðu ekki meira í leikhlutanum eftir að Blikarnir fóru í svæðisvörnina. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 89-69.

Fjórði leikhluti var heldur betur fjörugur þrátt fyrir þennan mikla mun. Valsmenn voru duglegir að kasta frá sér boltanum og maður var farinn að velta því fyrir sér hvort þeir ætluðu að kasta frá sér leiknum. Blikar voru duglegir að refsa töpuðu boltunum og skoruðu slatta af hraðaupphlaupskörfum. Valsmenn héltu áfram að hitta fyrir utan og geta þakkað því fyrir að hafa unnið leikinn.

Af hverju vann Valur?

Blikar áttu ekki séns undir körfunni í kvöld. Þegar stóru strákarnir hjá Val fengu boltann undir körfunni þá þurftu Blikar oft að hjálpa af skotmönnum Vals. Þeir nýttu skotin vel en þeir voru með meira með 50% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hverjir stóðu upp úr?

Aleks Simeonov leikmaður Vals setti tóninn snemma í leiknum með 15 stigum og 3 stoðsendingum. Hann hélt áfram þessum töktum og endaði leikinn með 22 stig og stoðsendingar.

Kendall Anthony Lamont fór hægt af stað en þegar hann byrjaði að skora þá bara hætti hann ekki. Þeir réðu ekkert við hann þegar hann kom af boltahrindunum. Austin Magnús Bracey hitti vel fyrir utan eins og oft áður. Raggi Nat lét kannski ekki mikið fyrir sér fara sóknarlega en var virkilega flottur í kvöld í fráköstum og vörn.

Sigurður Dagur og Illugi komu með mikla orku inn af bekknum og spilaði frábærlega í vörninni. Valsliðið hefur ekki verið með nógu mikla ástríðu hingað til en í kvöld vantaði ekki uppá hana. Þessir tveir áttu stóran hlut í því.

Christian David Covile heldur áfram að kveikja í netum en hann var flottur sóknarlega fyrir Blika eins og oft áður. Snorri Vignis var einnig frábær í kvöld, nýtti sín færi vel og barðist eins og ljón. Það er búið að vera gaman að fylgjast með Snorra í haust. Hann er búinn að sýna það síðustu ár að hann getur verið kóngurinn í fyrstu deildinni og það er frábært að sjá hann standa sig líka vel í úrvalsdeild.

Hvað gerist næst?

Landsleikjahlé. Geri ráð fyrir stífum æfingum hjá báðum þessum liðum fyrir seinustu leiki ársins 2018.

Illugi Steingríms: Höfum tíma til að vinna í vörninni

„Þetta var fínt. Sóknarleikurinn var góður en það vantar aðeins uppá varnarleikinn,” sagði Illugi Steingrímsson leikmaður Vals um frammistöðu liðsins í kvöld.

Breiðablik vann fjórða leikhluta með níu stigum en Blikar spiluðu svæðisvörn allan leikhlutann.

„Svæðisvörnin kom okkur smá á óvart en við erum samt góðir á móti svæðisvörn. Það er bara eitthvað sem var ekki að klikka hjá okkur. Við vorum hinsvegar að hitta vel.”

Núna er að koma landsleikjahlé, hvernig lýst þér á það?

„Mér finnst það fínt. Höfum þá tíma til að vinna í vörninni og fáum smá pásu frá leikjum.”

Gústi Björgvins: „Kunnum ekki að hlaupa leikkerfin okkar”

Hver var ástæðan fyrir að þeir ná að minnka muninn svona í fjórða leikhluta?

„Fyrst og fremst slakur varnarleikur. Við erum að fá á okkur alltof mörg stig í fjórða leikhluta. Sóknin okkar var líka slök, við kunnum ekki að hlaupa leikkerfin okkar. Þess vegna skora þeir sniðskot eftir sniðskot úr hraðaupphlaupum þar sem við vorum með mikið af töpuðum boltum.”

„Þeir skora alltof mörg sniðskot. Við erum að fá á okkur alltof mörg stig í öllum leikjum sem við erum að spila. Við erum að fá á okkur 100 stig að meðaltali í leik það er alltof mikið,” sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals aðspurður um hvort Valur hafi verið að fá of mikið af körfum á sig eftir sniðskot.

“Ég er bara aðallega bara sáttur með sigurinn en ég hefði auðvitað vilja sjá aðeins betri varnarleik hjá okkur. Ég er ánægður yfir að það sé tvær og hálf vika í næsta leik þannig að við fáum að vinna aðeins í varnarleik. Ég trúi ekki öðru en að það muni búa aðeins betur yfir okkur varnarlega en við erum búnir að sýna í síðustu leikjum.”

Hver var lykillinn að sigri í kvöld?

„Aðallega litlu atriðin. Við skjótum boltanum vel en við erum að fá mikið af galopnum skotum það hjálpar auðvitað til. Sigurður Dagur fannst mér geggjaður í þessum leik, orkan sem hann kom með inn í liðið af bekknum og líka þegar hann sat á bekknum var frábær. Ég sá aðeins frá Degi, Bennsa og Illuga sem var svipað geðveikinni í fyrra og ég er mjög sáttur með það og mér fannst það skipta miklu máli.”

Það er leiðindamál sem er búið að rata í fjölmiðla í vikunni varðandi Odd Rúnar Kristjánsson fyrrum leikmann Vals. Viltu eitthvað tjá þig um það?

„Ég vill ekki tjá mig um það. Við missum góðann mann en að öðru leyti vill ég ekki tjá mig um það.”

Snorri Vignis: Töpum leiknum varnarlega

„Við töpum leiknum klárlega varnarlega. Núna eru tveir leikir í röð þar sem að lið skora hátt í 120 stig á móti okkur. Við erum að spila góða sókn en það er engin vörn til staðar,” sagði Snorri Vignisson leikmaður Breiðabliks um hvað varð hans mönnum að falli í kvöld.

Það vantaði nafna þinn Snorra Hrafnkelsson í kvöld, myndir þú segja að það sé hluti af ástæðunni fyrir tapinu í kvöld?

„Já hann hjálpar liðinu mikið en það er engin afsökun. Við vorum að spila illa, þeir voru að fá opin skot sérstaklega frábærar skyttur. Austin og Kendall eru að fá galopin skot það er ekki undir Snorra komið að bjarga því við verðum bara að laga það sjálfir.”

„Þriggja stiga skotið er að virka betur en það hefur gert áður. Það er búið að opna fleiri víddir af leiknum fyrir mig,” sagði Snorri um afhverju hann er búinn að skora svona mikið á þessu tímabili.

Jura spilaði í kvöld sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu. Hvernig finnst þér hann vera að koma inn í liðið?

„Vel. Hann er stór, langur og getur skipt. Hann hjálpar okkur klárlega, þetta var flottur leikur hjá honum í dag og vonandi heldur hann áfram svona.”

 

Pétur: Eru annað hvort besta sóknarlið á landinu eða við versta varnarliðið

„Annað hvort eru þeir besta sóknarlið á landinu eða við versta varnarlið á landinu. Það er hugsanleg ástæða fyrir því að við töpum en ég veit ekki hvort það er,” sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Breiðablik eftir leik kvöldsins.

Snorri Hrafnkelsson byrjunarliðsmaður hjá Blikum var ekki með í kvöld en hann fékk heilahristing. Valsmenn voru töluvert betri undir körfunni í kvöld og ætli það hafi ekki vantað Snorra.

„Hann er búinn að vera gríðarlega mikilvægur fyrir okkur í allan vetur. Hann er kannski búinn að vera okkar jafnbesti maður hingað til. Það eru hinsvegar meiðsli í þessu og menn verða að vera undirbúnir undir það. Hann var ekki með í kvöld en það er ómögulegt að segja hvernig leikurinn hefði farið ef hann hefði verið með í kvöld.

Þið minnkið muninn eftir að þið farið í svæðisvörn í þriðja leikhluta. Sérðu eftir því að hafa ekki farið fyrr í svæðisvörnina?

„Við náðum ekkert að stoppa þá maður á mann. Þeir eru með góðar skyttur og ef við hefðum verið í svæðisvörn lengur svo þeir hefðu örugglega getað skotið okkur í kaf þannig líka. Ég veit það ekki, þetta er ómögulegt að segja. Við vorum líka klaufalegir í sókn oft og fengum fullt af tækifærum til að skora sem við nýttum ekki og það er kannski meira einbeitingarleysi í þessu. Ég var að vona að við hefðum komið aðeins öflugri inn í þennan leik. Þetta var náttúrulega mjög mikilvægur leikur fyrir okkur. Það er bara áfram gakk og við verðum að reyna að taka eitthvað úr þessu og reyna að bæta okkur.”

Þegar Kendall fékk boltahindranir létuð þið stóra manninn mæta honum á vítalínunni. Þegar þú lítur tilbaka værir þú til í að breyta þessari taktík?

„Þetta er bara það sem við erum búnir að vera æfa uppá síðkastið. Þetta er okkar boltahindrunarvörn og hún virkaði í síðasta leik og hún virkaði illa í þessum leik svo það er kannski eitthvað sem við þurfum að skoða betur. Við erum búnir að vera að lenda í vandræðum með stóra menn þegar þeir eru að rúlla inn. Við vorum eitthvað að reyna að loka fyrir það en þá bara opnast eitthvað annað. Maður verður að velja sér einhverskonar eitur í þessu og við erum einhvern veginn alltaf að velja vitlaust.”

Munið þið breyta miklu taktísk í landsleikjahlénu?

„Eins og ég sagði eftir síðasta leik þá er þetta ekki að virka hjá okkur. Við þurfum hugsanlega að skoða hvort við þurfum að breyta einhverri taktík. Bara eins og þetta með vörnina á boltahindranirnar. Möguleikum í sókninni, hvernig við ráðumst á andstæðingana sóknarlega. Það er bara margt sem við þurfum að skoða og það er í sjálfu sér allt undir í því. Það er annað hvort að láta þetta vera allt eins eða reyna að bæta einhverju við og reyna að auka möguleika okkar til að vinna fleiri leiki en einn af átta.”

Þið eruð einungis með einn sigur eftir sjö leiki, ertu nokkuð hræddur við falldrauginn?

„Eins og staðan er núna þá lítur þetta ekki vel út. Bæði við og önnur lið hafa verið að breytast bara með mjög stuttum fyrivara. Það getur ýmislegt breyst í þessu. Við gætum fundið út hvernig á að spila vörn á boltahindranir, við gætum fundið út hvernig við getum skorað auðveldar þannig að við skulum vona að þetta hlé hjálpi okkur eitthvað í þeirri vinnu.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira