Enski boltinn

Messan: Einn af styrkleikum Klopp er að hann breytir um skoðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Strákarnir í Messunni ræddu Liverpool og möguleika lærisveina Jürgen Klopp á því að veita Manchester City einhverja keppni um enska meistaratitilinn á þessu tímabili.

Reynir Leósson og Gunnleifur Gunnleifsson voru gestir Ríkharðs Guðnasonar að þessu sinni.

Manchester City og Liverpool eru einu taplausu liðin í deildinni eftir tap Chelsea um helgina en City er ríkjandi Englandsmeistari og með tveggja stiga og fjórtán marka forskot á Liverpool.

„Mér finnst Liverpool hafa þau gæði að liðið geti veitt þeim keppni. Ég vona það að við fáum spennu í toppbaráttuna og Liverpool er það lið sem helst getur gert það,“ sagði Reynir Leósson í Messunni.

Liverpool vann 3-0 sigur á Watford um helgina og Reynir notar þau úrslit í samanburði við sömu viðureign á síðustu leiktíð.

„Við sjáum bara Liverpool núna ef minnið er ekki að svíkja mig að leikurinn á móti Watford á síðasta tímabili hafi farið 3-3. Það var fram og til baka fótbolti. Í þessum leik eru þeir ekkert sérstakir þangað til þeir skora fyrsta markið en aftur á móti rosalega þéttir til baka,“ sagði Reynir.

Liverpool er búið að breyta um leikskipulag og leikstíl.

„Það er styrkleiki hjá Jürgen Klopp að hann breytir um skoðun. Ef eitthvað er ekki að virka þá bara breytir hann því. Skiptir bara um skoðun og segir: Ég vil spila svona bolta,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

Það má finna alla umfjöllunina um Liverpool hér fyrir neðan.

Klippa: Messan: Möguleikar Liverpool á móti Man. City





Fleiri fréttir

Sjá meira


×