Sport

Ótrúlegt að sautján ára kappaksturskona hafi lifað af þennan árekstur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Florsch.
Sophia Florsch. Mynd/Instagram/Van Amersfoort Racing
Þýsk táningsstelpa slasðist mjög illa í árekstri í kappakstri um helgina eftir að hafa flogið út af brautinni og yfir öryggisgirðingu.

Nú er komið í ljós að hin þýska Sophia Florsch lifði af þennan árekstur og þessa rosalegu flugferð sína í F3 kappakstrinum í Macau í Kína.

Sophia Florsch er aðeins sautján ára gömul en hún keppir fyrir Van Amersfoort Racing liðið. Van Amersfoort Racing gaf út yfirlýsingu eftir slysið um að Sophia Florsch væri með meðvitund og ekki í lífshættu.

Frekari fréttir af ástandi Sophia Florsch hafa nú komið fram í dagsljósið en hún hryggbrotnaði í þessum árekstri og þarf að fara í aðgerð.





Sophia Florsch var á 276 kílómetra hraða þegar hún fór utan í bíl Jehan Daruvala á fjórða hring. Hún missti stjórn á bílnum og lenti á bíl Sho Tsuboi áður en hún flaug út úr brautinni.

Áreksturinn við bíl Sho Tsuboi varð til þess að bíll Sophiu fór á flug og fór yfir varnargarð. Hún endaði á vegg utan brautar og á svæði þar sem ljósmyndarar og öryggisverðir höfðu aðstöðu.

Sho Tsuboi slasaðist líka í árekstrinum sem og tveir ljósmyndarar og einn öryggisvörður.

Sophia Florsch fullvissaði aðdáendur sína á Twitter að það væri í lagi með hana en að hún væri á leiðinni í aðgerð í dag.

„Takk allir fyrir stuðninginn oh hlý orð. Frekari fréttir bráðum,“ skrifaði Sophia Florsch á Twitter-síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.



 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessum svakalega árekstri og þar sést vel hversu magnað er að Sophia hafi hreinlega lifað þetta hryllilega slys af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×