Sport

Togaði í bremsu andstæðings í miðri mótorhjólakeppni en má nú keppa á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romano Fenati.
Romano Fenati. Vísir/Getty
Ítalski mótorhjólakappinn Romano Fenati hneykslaði marga með framkomu sinni fyrr á þessu ári en hann hefur nú fengið keppnisleyfi á ný þrátt fyrir allt.

Romano Fenati togaði í bremsu andstæðings þegar þeir voru hlið við hlið í miðri mótorhjólakeppni í San Marino í september síðastliðnum en þeir voru þá á 217 kílómetra hraða.

Það þarf ekkert að ítreka það að þetta er stórhættulegt og Giovanni Castiglioni, forseti Agusta liðsins, lýsti þessu sem hættulegustu hegðun sem hann hafi orðið vitni að í keppni.

Romano Fenati má keppa á næsta ári en hann var skiljanlega settur í bann strax eftir atvikið.

Hinn 22 ára gamli Fenati mun keppa áfram fyrir liðið sitt Marinelli Snipers þrátt fyrir að hann hafi verið rekinn frá félaginu strax eftir atvikið. Forráðamenn Marinelli Snipers hafa ákveðið að gefa honum annað tækifæri.





Romano Fenati fékk hinsvegar „stöðulækkun“. Hann var að keppa í Moto2 þegar hann setti andstæðing sinn í þessa miklu hættu. Á næsta keppnistímabili mun hann aftur á móti keppa í Moto3.

Romano Fenati baðst strax afsökunar á hegðun sinni og talaði sjálfur um að hún hafi verið skammarleg.

Alþjóðamótórhjólasambandið, FIM, frysti keppnisleyfi hans út árið 2018 en hefur nú gefið honum aftur grænt ljós frá og með janúar 2019.

Fenati hefur unnið tíu Moto3 keppnir á ferlinum og hefur 23 sinnum komist á verðlaunapallinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×