Skoðun

Sjókvíaeldi á Íslandi

Tómas J. Knútsson skrifar
Undirritaður finnur sig knúinn til að setja niður á blað lífsreynslu sína af köfun í sjókvíaeldi við Ísland hér áður fyrr (1985-1991.) Á þessum árum kafaði ég fyrir nokkur fiskeldisfyrirtæki sem ætluðu sér stóra hluti í þessum iðnaði, m.a. Faxalax og Laxalón. Kvíaeldi Laxalóns var í Hvalfirði og Faxalax var fyrir utan Vogastapa. Reyndar voru mínar fyrstu kafanir í sjókvíum í Ósabotnum nokkrum árum áður en ekki margar.

Fyrirtækið Faxalax sendi mig utan til að fá starfsþjálfun í sjókvíaeldisköfun og eftirlit með slíkum kvíum sem voru þær bestu sem völ var á og áttu að þola allt að 12 metra ölduhæð. Þær voru 18 metra djúpar og endurhönnun á netunum átti að tryggja að þær rifnuðu ekki við blýateininn sem var fyrir miðju pokans. Þessi búr voru gefin upp til að geta þolað yfir 100 tonn af fiski í þeim í eldi. Kvíarnar voru 4 og allt festingarkerfið fyrir þessar kvíar samanstóð af 12 sérsteyptum 10 tonna steypuklumpum og að auki voru sett 2 risaakkeri í norður vegna þess að steinarnir fóru á skrið á botninum sem snéru í norður eftir fyrstu bræluna. Dýpið undir kvíunum var 30 metrar.

Strax í byrjun rak ég niður 4 metra langar stikur undir hverja kví til að geta fylgst með setinu og affallinu. Öll bólfærin fengu sína staðsetningarpunkta og allt skráð niður í plotter fóðurbátsins. Framleiðendur kvíanna(Bridgestone-Japan) lögðu mjög mikla áherslu á reglulegt eftirlit og köfun sem og tryggingarfyrirtækið á Íslandi. Öllum settum leikreglum var fylgt og bætt við ef eitthvað var enda mikið í húfi.

Þegar líða tók á eldið, en þetta var svokallað skiptieldi(seiðin komu 400 - 500 g), fór að bera á alls kyns vandamálum, það herjuðu á kvíarnar skarfar sem átu göt á netin, mikill gróður myndaðist á sumrin sem íþyngdi kvíarnar, selir gerðu göt á selanæturnar sem og rekaviður, mikil ísing á veturna rifu fuglanetin í spað sem og hoppunetin ofan sjávarmáls og brutu upphengjurnar. Undir kvíunum myndaðist mikið affall frá kvíunum og var fyrsta árið yfir 10 sm lag af úrgangi undir kvíunum. Í þetta sóttu aðrar lífverur eins og alls kyns skeldýr og ígulker, síðan kom krossfiskur og át allan skelfiskinn og í restina var bara skeljaauðn undir búrunum.

Nytjafiskur(þorskur,ýsa og ufsi) ólst upp við kvíarnar og lifði á fóðurleyfum og fóðri sem fór í gegn. Við veiddum okkur í soðið í byrjun en hættum því fljótlega þar sem að nytjafiskurinn var ekki ætur sökum fóðurbragðs. Smám saman dó síðan þetta fiskeldi og það sem drap það var lús, hreisturskemmdir eftir ofsaveðrin en þá minkaði rúmmálið í kvíunum umtalsvert, rifnar nætur vegna ánetjunar, peningaleysi, frosthörkur og afleitt veðurfar við Faxaflóann.

Kafað var a.m.k. 700 sinnum á þessum 6 árum í þær kvíar sem fiskeldi var í hér á suðvesturhorninu og haldnar dagbækur um allar kafanir, skoðanir og skrifaðar skýrslur reglulega um athugasemdir sem upp komu. Í lokin fór fiskeldið á hausinn, enginn hugsaði um kvíarnar og mikill fiskur slapp út, líklega milli 60-80 tonn. Skiptastjórarnir höfðuðu mál og ætluðu að kreista út úr tryggingunum fé en töpuðu málinu eingöngu fyrir köfunar- og eftirlitsdagbókum kafarans sem voru útfylltar eftir ströngustu kröfum Lloyds.

Það er mikill ábyrgðarhluti þeirra einstaklinga sem vilja stunda fiskeldi að gera það rétt og í sátt við umhverfið. Því miður er eina fiskeldið sem hægt er að treysta á að ekki skaði umhverfið í kringum sig fiskeldi á landi. Þriðja kynslóðin af fiskeldi í sjókvíum á Íslandi er dauðans alvara, ekki bara fyrir lífríki hafsins sem á að fá að vera í sínu náttúrulega umhverfi heldur einnig sú tálsýn sem hún er fyrir fjárfestum og komandi vinnuafli.

Þetta mun aldrei ganga upp vegna legu landsins, en fyrst og fremst mun þetta aldrei ganga upp vegna þess að sjórinn við landið stýrir vexti fisksins og hann er umtalsvert lægri hér en í samkeppnislöndum þeim sem við erum að keppa við. Upp á land með eldið og notum affallið til áburðardreifingar með grasfræjum, hættum fiskeldi í sjó og leyfum náttúrunni að njóta vafans.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×