Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Valur 90-88│Grindavíkursigur eftir dramatík

Smári Jökull Jónsson í Röstinni skrifar
Ólafur lék lykilhlutverk í lokasóknum Grindavíkur.
Ólafur lék lykilhlutverk í lokasóknum Grindavíkur. vísir/bára
Grindavík vann tveggja stiga sigur á Val í Domino´s deild karla í körfuknattleik í kvöld eftir mikla dramatík.

Leikurinn var í járnum framan af og hvorugt liðið náði einhverri forystu að ráði. Heimamenn höfðu yfirleitt yfirhöndina og leiddu með tveimur stigum í hálfleik eftir flautukörfu frá Lewis Clinch.

Í þriðja leikhluta virtust heimamenn ætla að taka af skarið. Þeir náðu mest 13 stiga forskoti og náðu varnarleiknum í sæmilegt horf. En Valsliðið gafst ekki upp, kom sér aftur inn í leikinn með góðum spretti í lokafjórðungnum og síðustu mínúturnar voru æsispennandi.

Kendall Lamont jafnaði metin í 83-83 þegar skammt var eftir og fékk svo sérstaka tæknivillu frá dómurum leiksins fyrir að biðja um vítaskot að auki. Grindavík nýtti sér það, Clinch skoraði úr vítinu og setti svo aðra körfu í sókninni sem fylgdi á eftir.

Aleks Simeonov jafnaði metin á nýjan leik fyrir Val en Ólafur Ólafsson var hetja heimamanna og tryggði sigurinn með frábærum þristi þegar rúmar 10 sekúndur voru eftir. Lamont minnkaði muinn í eitt stig þegar þrjár sekúndur lifðu leiks en það dugði ekki, Ólafur bætti við einu stigi af vítalínunni og Grindavík vann sætan tveggja stiga sigur.

Valsmenn því enn sigurlausir eftir fimm umferðir en Grindavík vann langþráðan sigur eftir þrjá tapleiki í röð.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir settu stóru skotin í lokafjórðungnum, skotvalið hjá Ólafi í lokaskotinu var kannski ekki sérstakt en það fór niður og það er það sem telur.

Valsmenn voru ósáttir, töldu dóma ekki falla með þeim undir lokin og tæknivillan á Kendall Lamont var fyrir litlar sakir. 

Grindavík sýndi betri leik en í síðustu leikjum þar á undan. Varnarleikurinn var góður í tvo leikhluta en eins og Jóhann þjálfari sagði í viðtali eftir leik eiga þeir þó langt í land enn.

Þessir stóðu upp úr:

Lewis Clinch var lengi í gang en það glitti í gamla góða Clinch á köflum sem Grindvíkingar þrá svo mikið. Ólafur Ólafsson átti frábæran fyrri hálfleik en týndist aðeins í þeim síðari. Hann steig svo upp undir lokin og kláraði leikinn með frábærri körfu.

Hjá Val var Aleks Simeonov flottur sem og Kendall Lamont. Austin Bracy setti ágætar körfur en hitti ekki vel og klikkaði óvenju oft á opnum skotum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur liðanna var ekki nógu öflugur í kvöld og Ágúst Björgvinsson þjálfari Valsara talaði um viljaskort frá sínum mönnum í varnarleiknum.

Grindvíkingar taka of oft slæmar ákvarðanir sóknarlega en það þarf kannski að hafa í huga að þeir eru enn að setja saman sitt lið. Nái þeir Clinch í gang og Bamba almennilega inn í liðið gætu þeir farið að ógna stærri liðunum.

Hvað gerist næst?

Grindavík á næst bikarleik á mánudaginn. Þeir fá þá Keflvíkinga í heimsókn og geta hefnt fyrir stórtapið í deildinni á dögunum.

Valsmenn halda áfram að mæta Suðurnesjaliðunum og mæta Njarðvíkingum í bikarkeppninni á sunnudag. Þeir freista þess þá að vinna sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Jóhann Þór: Þetta var engin Mourinho taktík
Jóhann sá jákvæða punkta hjá liði Grindavíkur í kvöld.vísir/vilhelm
„Það var fullt af ljósum punktum í þessu en við erum enn í þróunarferli og eigum langt í land. Það voru jákvæðir punktar úti um allt samt,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn gegn Val í kvöld suður með sjó.

„Fyrsti og þriðji leikhluti standa upp úr varnarlega og ákvarðanatökur sóknarlega eru betri þó svo að þær megi vera töluvert skárri. Varnarlega erum við að gera barnaleg mistök og eigum töluvert í land þar,“ bætti Jóhann við þegar Vísir ræddi við hann eftir leik.

Lewis Clinch skoraði 24 stig í kvöld og átti sinn besta leik síðan hann mætti í Grindavík á nýjan leik. Ólafur Ólafsson átti einnig fína spretti og setti sigurkörfuna undir lokin fyrir utan þriggja stiga línuna.

„Lewis var flottur í restina og skoraði stórar körfur. Skotið hjá Ólafi var kannski týpískt varðandi skotavalið sem ég er að tala um, en það fór niður þannig að það bjargaðist fyrir okkur.“

Tiegbe Bamba lék sinn fyrsta leik í gula búningnum í kvöld og átti ágæta innkomu, skoraði 9 stig og tók 8 fráköst og sýndi að það er ýmislegt í hann spunnið.

„Hann var allt í lagi. Þetta er flottur leikmaður og kann körfubolta, mikill skrokkur og allt það. Við þurfum að finna leiðir til að nýta okkur hann í vörn og sókn og ég hef engar áhyggjur af því.“

Eftir tapleikinn gegn Keflavík um daginn lét Jóhann Þór hafa eftir sér á Vísi að hann væri að velta fyrir sér að hætta með liðið. Mörgum fannst ummælin sérstök og sérfræðingar Domino´s körfuboltakvölds ræddu meðal annars um áhrif þessara orða á lið Grindavíkur. Sér Jóhann eftir þessum orðum?

„Alls ekki. Ég get ekki sagt að þetta sé enn að fara í gegnum hausinn. Við settumst niður og ræddum þetta fram og til baka. Ég er þannig að það sem fer í gegnum hausinn á mér frussast út. Þetta var engin Mourinho-taktík eins og einhverjir voru að tala um. Þetta var það sem fór í gegnum hausinn á mér.“

„Við funduðum bæði föstudag og laugardag eftir leikinn og ræddum þetta fram og til baka. Þetta er bara búið og gert og áfram gakk,“ sagði Jóhann Þór að lokum.

Ágúst: Þetta er ekki góð staða
Ágúst var svekktur eftir leikinn í kvöldVísir/Ernir
„Við spiluðum ágætlega í fjórða leikhluta, það er jákvætt. Við þurfum að spila fjóra góða leikhluta til að geta unnið hvaða lið sem er í deildinni. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af,“ sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Valsmanna eftir tapið gegn Grindavík í Dominos-deildinni í kvöld.

„Við þurfum vilja. Vilja til að spila vörn, vilja til að spila saman og þá sérstaklega varnarmegin. Varnarleikurinn er okkar helsta áhyggjuefni. Við getum skorað, eins og sást í fjórða leikhluta, þegar við viljum. Við erum með leikmenn til þess. Við þurfum að vera tilbúnir að spila vörn, það er það sem er að.“

Kendall Lamont og William Saunders voru að leika sinn annan leik með Val í kvöld. Kendall var flottur líkt og gegn KR en Saunders átti erfitt uppdráttar.

„Þeir eru ágætlega að koma inn í þetta. Kendall er búinn að sýna það í tvo leiki að það er erfitt við hann að eiga. Þetta er samt meira hvað við þurfum að laga varnarlega, bæði liðs- og einstaklingsvörn.“

Valsmenn eru enn án sigurs eftir fimm umferðir og Ágúst viðurkenndi að þetta væri erfitt.

„Þetta er ekki góð staða, við erum ekki ánægðir með hana. Þetta er leikur sem við ætluðum okkur að taka. Þetta lið sem var hérna er búið að tapa tveimur leikjum og það er engin ástæða til að örvænta eftir tvo tapleiki. Auðvitað eru tapleikirnir fleiri en þetta lið tapaði tveimur leikjum og við þurfum að ná í sigur til að létta á öllu,“ sagði Ágúst að lokum.

Clinch: Gerðum vel í að loka leiknum
Lewis Clinch átti fínan leik í kvöld.fréttablaðið/eyþór
Lewis Clinch átti sinn besta leik fyrir Grindavík síðan hann gekk til liðs við þá á nýjan leik fyrir skömmu. Hann skoraði 24 stig og setti stórar körfur í lokin þrátt fyrir að vera frekar lengi af stað.

„Nú líður mér eðlilega. Strákarnir eru að ýta á mig á æfingu, þjálfarinn leiðir okkur áfram og undirbjó okkur vel fyrir leikinn í kvöld á allan hátt. Við erum að vinna í standinu á okkur og vörninni. Við gerðum vel í að loka leiknum í kvöld,“ sagði Lewis eftir leikinn í kvöld þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann.

„Við erum að verða betri. Ég er spenntur fyrir því að við tökum skref áfram. Ég hlakka til leiksins gegn Keflavík á mánudaginn. Mér leið ekki eðlilega í leiknum gegn þeim síðast, þeir eru með gott lið og þjálfarinn er sá sem þjálfaði mig fyrst hér á Íslandi. Mig langar að berjast fyrir því að vinna bikarinn,“

Þetta er í þriðja sinn sem Lewis Clinch gengur til liðs við Grindavík og hann er afar ánægður með að vera kominn aftur.

„Grindavík er heima fyrir mér. Mér líður vel að vera kominn aftur, ég hlakka til að vinna með yngri iðkendunum og þjálfa þau. Það er eitthvað sem ég hef mikla ástríðu fyrir og ég er afar ánægður með að vera kominn aftur og er tilbúinn að hjálpa liðinu að gera vel."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira