Enski boltinn

Labbaði með leikfangabyssur inn á Old Trafford

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Öryggisreglur Old Trafford voru strangar fyrir og gætu nú orðið enn harðari
Öryggisreglur Old Trafford voru strangar fyrir og gætu nú orðið enn harðari Vísir/Getty
Manchester United endurskoðar öryggisreglur á Old Trafford þessa dagana eftir að upp komst að tveimur leikfangabyssum hefði verið smyglað inn á leikvanginn.

Stuðningsmaður hljóp inn á völlinn snemma í leik United og Juventus í Meistaradeild Evrópu á dögunum. Öryggisverðir náðu að fanga stuðningsmanninn og koma honum af vellinum. Eftir það fóru þeir og skoðuðu sæti stuðningsmannsins og fundu þar tvær leikfangabyssur.

„Að fara með leikfangabyssur úr plasti inn á völlinn er augljóslega mjög óábyrg hegðun,“ sagði talsmaður United.

„Sem betur fer slasaðist enginn í þetta skipti, en þar sem öryggi stuðningsmanna og starfsfólks er í algjörum forgangi hjá Manchester United setti félagið strax af stað rannsókn á aðstæðum.“

„Hún felur í sér endurskoðun á öllum öryggisreglum.“

Eftir umræddan leik hlupu tveir stuðningsmenn til viðbótar inn á völlinn. Manchester United á yfir höfði sér refsingu fyrir þessa hegðun stuðningsmannanna, aganefnd UEFA tekur málið fyrir í lok mánaðarins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×