Gylfi lagði upp í þægilegum sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að vera frábær fyrir Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að vera frábær fyrir Everton. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp eitt marka Everton í 3-1 sigri á Brighton í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi átti tvö góð færi snemma leiks áður en hann byrjaði skyndisókn upp úr hornspyrnu Brighton sem skilaði fyrsta markinu. Gylfi átti laglega sendingu inn á Richarlison sem vippaði yfir Mathew Ryan í marki Brighton.

Stuttu seinna jafnaði Lewis Dunk metin með laglegu skallamarki upp úr hornspyrnu. Þar mátti þó setja stórt spurningamerki við varnarvinnu Everton þar sem menn virtust gleyma sér í að passa mennina inn á teignum.

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiks átti Everton dauðafæri, Idrissa Gueye skaut í slánna og Theo Walcott hitti ekki á markið úr galopnu færi úr teignum.

Stuttu seinna kom Seamus Coleman Everton hins vegar yfir með langskoti á 50. mínútu.

Richarlison bætti öðru marki sínu við á 77. mínútu og kláraði leikinn. Gylfi gerði vel í pressunni sem varð til þess að Richarlison komst inn í slæma sendingu í vörn Brighton.

Brasilíumaðurinn spretti í teiginn og kláraði sjálfur í netið en hann var með Gylfa galopinn með sér í teignum.

Alireza Jahanbakhsh átti gott skot og var nærri því að laga stöðuna fyrir Brighton undir lok leiksins en Jordan Pickford sá við honum og Everton fór með sigur eftir nokkuð þægilegan seinni hálfleik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira