Körfubolti

Körfuboltakvöld um Ragnheiði: Hún er rosalegt efni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Breiðablik er enn ekki komið með sigur í Domino's deild kvenna í körfubolta. Liðið hefur þó verið inni í flestum leikjum sínum og eru margar ungar og efnilegar stúlkur í liði Blika.

Ein þeirra er Ragnheiður Björk Einarsdóttir sem lék stórt hlutverk í liði Blika í 78-85 tapi fyrir Keflavík í vikunni. Hún þurfti að stíga upp í leiknum þar sem Isabella Ósk Sigurðardóttir meiddist á dögunum.

„Þegar manneskjan sem er fyrir framan þig í róteringunni dettur út þá er það bara tækifæri og þarna er hún bara að grípa gæsina,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson í Domino's Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport.

„Sjáðu jafnvægið og staðsetningar hjá henni. Hún er 1,83. Hreyfigetan, 19 ára, hún er rosalegt efni,“ sagði Fannar Ólafsson.

Ragnheiður skoraði 18 stig, tók 2 fráköst og átti þrjár stoðsendingar í leiknum og frammistaða hennar skilaði henni í úrvalslið umferðarinnar.

Ragnheiður var í Íslandsmeistaraliði Hauka á síðasta tímabili og fékk fáar mínútur í leik þar. Hún færði sig yfir til Blika í sumar og hefur spilað yfir tuttugu mínútur í síðustu leikjum.

Sérfræðingarnir ræddu einnig leiki KR og Skallagríms og Vals og Stjörnunnar ásamt því að fara yfir úrvalslið umferðarinnar.

Umræðuna má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×