Körfubolti

Auðvelt hjá Stjörnunni gegn Blikum en dramatík á Selfossi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ægir átti afar góðan leik í kvöld.
Ægir átti afar góðan leik í kvöld. vísir/bára
Stjarnan er komið áfram í 16-liða úrslit Geysisbikarsins í körfubolta eftir öruggan sigur á Breiðablik í Ásgarði í kvöld, 105-78.

Stjarnan setti tóninn strax í fyrsta leikhluta en eftir hann var Stjarnan 27-10 yfir. Í hálfleik stóðu leikar svo 54-37, Stjörnunni í vil.

Aftur mættu Stjörnumenn af fullum krafti út í síðari hálfleikinn en þriðji leikhlutinn endaði 32-17 og lokaniðurstaðan varð svo 27 stiga munur á liðunum sem leika bæði í Dominos-deildinni.

Stigahæstur Stjörnumanna var Antti Kanervo en hann gerði 24 stig. Ægir Þór Steinsson átti mjög góðan leik en hann gerði níu stig, tók sex fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Hjá Blikunum var það Árni Elmar Hrafnsson sem var stigahæstur með tólf stig en næstir komu Bjarni Geir Gunnarsson og Christian Covile með tíu stig hvor.

Á Selfossi höfðu heimamenn betur gegn Sindra, 94-91, í spennuleik en bæði lið leika í B-deildinni. Þar hafa þau bæði farið illa af stað og tapað fyrstu leikjum sínum í deildinni, Sindri fimm og Selfoss fyrstu fjórum.

Dramatíkin var mikil á Selfossi í kvöld en er innan við mínúta var eftir af leiknum leiddi Sindri, 91-89. Fimm stig frá Selfyssingum á síðustu mínútunni skilaði þeim áfram í næstu umferð.

Hjá Selfoss var það Ari Gylfasson sem var stigahæstur en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 30 stig. Michael E Rodriguez bætti við 28 en hjá gestunum var það Kenneth Fluellen sem gerði 25 stig. Barrington Stevens III skoraði 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×