Sigurmark á ögurstundu gegn 10 mönnum Brighton

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það sást langar leiðir hversu miklu máli sigurinn skipti heimamenn.
Það sást langar leiðir hversu miklu máli sigurinn skipti heimamenn. vísir/getty
Souleymane Bamba tryggði Cardiff sigur gegn 10 mönnum Brighton á lokamínútu venjulegs leiktíma í Cardiff í dag.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Cardiff sem lyfti sér upp úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Gestirnir í Brighton fengu frábæra byrjun á leiknum þegar fyrirliðinn Lewis Dunk skoraði eftir aðeins sex mínútna leik. Bamba gaf aukaspyrnu fyrir utan teig og hleypti Dunk svo framhjá sér á fjærstönginni, grænklæddi varnarmaðurinn lét svo gott færi ekki forgörðum fara og skoraði af öryggi.

Ástandið átti hins vegar eftir að versna til muna fyrir gestina. Á 28. mínútu leiksins jafnaði Callum Paterson eftir frábæran sprett frá Kadeem Harris. Sex mínútum seinna var Dale Stephens rekinn af velli.

Stephens fór með takkana á undan sér, hátt á lofti, í tæklingu á Greg Cunningham og fékk réttilega að líta rauða spjaldið. Gestirnir voru því manni færri næsta klukkutímann.

Stephens fékk rauða spjaldið eftir hálftíma leikvísir/getty
Seinni hálfleikurinn byrjaði mjög rólega, heimamenn voru með nær einokun á boltanum en gerðu lítið við hann. 

Harris átti frábært færi á 59. mínútu þegar glæsilegt skot hans fór í slána.

Undir lok leiksins varð meira um færi þar sem bæði lið leituðu að sigurmarkinu. Neil Etheridge hafði vart snert boltann í marki Cardiff í seinni hálflei en þurfti að taka á honum stóra sínum til að neita Jose Izquierdo um sigurmark á 82. mínútu.

Það var svo á lokamínútu venjulegs leiktíma eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar að Cardiff skoraði sigurmarkið. Bamba reyndi bakfallsspyrnu sem fór í stöngina, Paterson átti skot í slána áður en Bamba fékk boltann aftur og hamraði boltann í þaknetið.

Langþráður sigur Cardiff í höfn og var honum eðlilega fagnað ógurlega af leikmönnum, starfsfólki og stuðningsmönnum á Cardiff City leikvanginum.

Cardiff fer, í það minnsta tímabundið, upp úr fallsæti. Brighton situr enn um miðja deild.









Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira