Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Breiðablik 96-92 │Deildarmeistararnir mörðu nýliðana

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Haukur Óskarsson átti fínan leik fyrir Hauka.
Haukur Óskarsson átti fínan leik fyrir Hauka. Vísir/Bára
Haukar tóku á móti Breiðablik í mikilvægum leik í 4.umferð Domino’s deild karla í kvöld. Haukar unnu að lokum 96-92 eftir fjörugan leik.

 

Blikarnir byrjuðu mjög vel í kvöld og voru að hitta sérstaklega vel í fyrri hálfleik. Þeir lentu undir 4-0 og 6-2 en í stöðunni 8-8 tóku þeir völdin á vellinum og komust yfir.

 

Þeir héldu forystunni út 1.leikhluta en þeir enduðu hann á flautukörfu frá Erlendi Ágústi Stefánssyni sem var flottur í kvöld. Staðan að honum loknum 26-19, Blikum í vil.

 

Sóknarleikur Blika hikstaði um miðbik 2.leikhluta en Haukar náðu þó aldrei yfirhöndinni því Blikar komu alltaf með þrist þegar þess þurfti og var þar fremstur í flokki Snorri Hrafnkelsson! Hann var sjóðandi heitur í leiknum og setti ófáa þristana. Blikarnir leiddu í hálfleik, 51-45.

 

Það var hinsvegar allt annað Haukalið sem mætti til leiks eftir hlé en þeir byrjuðu seinni hálfleik á 26-11 kafla og komust í 71-62 áður en Blikar settu 7 stig í röð. Haukar yfir 73-69 fyrir lokaleikhlutann.

 

Haukarnir voru skrefi framar allan lokaleikhlutann þrátt fyrir smá vesen um miðbik hans þar sem þeir voru ekki að setja niður skot og voru að brjóta heimskulega á sér og senda Blika á vítalínuna en Blikar settu meðal annars 8 víti í röð.

 

Haukarnir sigldu þessu samt sem áður í hús í lokin með reynslunni sinni og unnu góðan 96-92 sigur.

 

Af hverju unnu Haukar?

Reynsla lykilmanna Hauka skóp sigurinn. Haukur Óskarsson steig upp og setti stórar og mikilvægar körfur fyrir Hauka en hann var frábær í 3.leikhluta. Kristján Leifur kom einnig mjög sterkur í 4.leikhluta og steig upp þegar þurfti.

 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Blika undir körfunni! Haukarnir sigruðu klárlega baráttuna undir körfunni en Blikar skoruðu 28 stig þar en Haukarnir 48 stig. Það vantaði einnig smá reynslu í lokin hjá Blikum til að ná að kreista fram sigur. Tækifærið var til staðar.

 

Haukarnir gerðust sekir um heimskuleg mistök og voru að brjóta trekk í trekk heimskulega af sér og senda Blikana á línuna.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði Hauka var Haukur Óskarsson frábær og það sérstaklega í 3.leikhluta! Hann endaði leikinn með 26 stig þar af 6 þrista, tók 5 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Marques Oliver var í basli framan af en endaði þó með 23 stig og 11 fráköst. Kristján Leifur skilaði svo góðum 16 stigum og 8 fráköstum.

 

Hjá Blikum var Chris Covile með 25 stig og 9 fráköst og Snorri Hrafnkelsson bætti við 22 stigum þar af 4 þristar úr 6 tilraunum. Arnór Hermannsson var í vandræðum með að skora en náði þó 8 stoðsendingum.

 

Hvað gerist næst?

Blikar fá Skallagrím í heimsókn næstkomandi miðvikudagskvöld í nýliðaslag á meðan Haukar fara til Njarðvíkur og mæta heimamönnum.

vísir/ernir
Pétur: Á ég núna að vera stressaður útaf fjörum töpum?

Þjálfari Breiðabliks, Pétur Ingvarsson var svekktur í leikslok eftir tap liðsins gegn Haukum, 96-92 í hörkuleik á Ásvöllum í kvöld.

„Í þetta sinn og flest skipti erum við búnir að vera nálægt sigri en það voru helst þessar tvær lokasóknir þar sem þetta kláraðist, þeir eru með reynsluna en ekki við.”

Blikarnir byrjuðu mjög vel og hittu vel í fyrri hálfleik en síðan duttu þeir niður í þeim síðari, Pétur sagði það svosem skiljanlegt.

„Ég held að eðlileg hittni hafi bara verið óvenju góð og síðan eðlileg hittni þegar við vorum bara að setja 1 af hverjum 10.”

Pétur hefur engar áhyggjur af framhaldinu og er ekki að stressa sig á því þó að lið hans sé að missa leikina frá sér síðustu mínúturnar í fyrstu leikjunum.

„Í byrjun tímabils var talað um að við ættum að tapa öllum leikjunum, á ég þá núna að fara verða stressaður útaf fjórum töpum sem voru tæp? Við erum með ungt lið og við erum að læra og því oftar sem okkur mistekst í svona aðstæðum þá kannski tekst það einn daginn að klára svona leik.”

„Auðvitað er ég bjartsýnn á framhaldið, við erum búnir að tapa fjórum leikjum, þrír á útivelli og einn heimaleikur á móti einu sterkasta liðinu, Stjörnunni. Þannig að þetta er ekkert óeðlileg niðurstaða miðað við forsendur fyrir tímabilið,” sagði Pétur Ingvarsson í lokin.

vísir/bára
Ívar: Skynsemi sem skilar sigri að lokum

Hann var ánægður þjálfari Hauka, Ívar Ásgrímsson eftir sigurinn á Blikum í kvöld. Hann sagði skynsemi hafa gert útslagið í kvöld.

„Við vorum þokkalega skynsamir sóknarlega, sérstaklega síðustu tvær mínúturnar en við vorum samt sem áður að gera okkur erfitt fyrir, við brutum af okkur eins og vitleysingar. Erum komnir 9 stigum yfir og Blikarnir skora 7 stig í einni sókn.”

 

„Það var rosa dýrt og við vorum vitlausir í vörninni út um allan völl og ég veit ekki hvað þeir fá mörg víti í 4.leikhluta á móti okkur en ég var ánægður með baráttuna og skynsemina, við héldum haus og Haukur frábær og Kristján líka.”

 

„Heilt yfir mjög góðir sóknarlega, þeir hitta frábærlega í fyrri hálfleik og Snorri var gífurlega öflugur fyrir þá. Ég er bara mjög ánægður að hafa unnið.”

 

Aðspurður út í sterka byrjun liðsins í seinni hálfleik sagði hann þá einfaldlega hafa farið vel yfir varnarleikinn í hálfleik.

 

„Við fórum aðeins yfir varnarleikinn, við vorum að láta stóra manninn spila hátt en á móti kemur var Snorri að hitta vel, við ætluðum að gefa honum fyrsta þannig ég tók það á mig. Snorri var frábær í þessum leik en vörnin var miklu betri þangað til við fórum að brjóta.”

 

„Á meðan við vinnum réttu leikina þá er ég sáttur og við í góðum gír.”

 

Hann sagði brotin í lokin ekki tengjast kæruleysi heldur meira því að menn urðu spenntir og æstir eftir að hafa náð forystunni.

 

„Ekki kæruleysi nei, meira það að menn voru æstir og spenntir eftir að hafa komist yfir og við áttum að vera skynsamir í vörninni og halda þeim fyrir utan þá fórum við í að vera æstir og fórum úr því sem við gerðum til að komast yfir. Mér fannst menn samt leggja sig fram og það var ég mjög sáttur við,” sagði Ívar Ásgrímsson að lokum.

vísir/ernir
Haukur: Ekkert mjög fallegur leikur

Haukur Óskarsson leikmaður Hauka var maður leiksins í kvöld en hann var frábær í 3.leikhluta og sýndi sitt rétta andlit í kvöld eftir basl í byrjun tímabils.

 

„Barátta skildi liðin að held ég, þetta var ekkert mjög fallegur leikur og við erum búnir að vera spila skelfilega og ég held að menn hafi bara viljað sækja sigur sama hvernig það var gert.”

 

„Við kannski hittum aðeins betur en við höfum gert og vonandi er þetta bara skref fram á við.”

 

Hann talaði um að hittni Blika hafi verið mjög góð í fyrri hálfleik og þess vegna voru Haukar undir í hálfleik.

 

„Þeir voru að hitta frábærlega, með 50% í þristum og voru að setja skot í andlitið á okkur, hvert á fætur öðru og við vissum að það myndi ekki haldast allan leikinn þannig við stigum bara skrefi nær þeim og það virkaði.”

 

„Strákarnir fundu mig, ég veit það ekki, við erum búnir að vera slakir og ég líka og ég var ákveðinn í því að gera betur og það gekk upp í kvöld. Mjög sáttur með þennan leik í kvöld,” sagði Haukur Óskarsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira