Skoðun

Hvers vegna hafa ekki verið byggðar fleiri íbúðir í Reykjavík?

Elvar Orri Hreinsson. skrifar
Ef framboð nýbygginga síðastliðin ár er skoðað í Reykjavík þá hafa komið inn á markaðinn um 288 íbúðir á ári að meðaltali frá og með árinu 2008, samkvæmt skýrslu frá byggingafulltrúa sem er aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.

Meðalfjölgun íbúða fyrir þann tíma og aftur til 1972 eru um 660 íbúðir árlega, eða ríflega tvöfalt fleiri íbúðir. Þessi tölfræði hlýtur að kalla á spurninguna; Hafa verið byggðar nógu margar íbúðir í Reykjavík undanfarin ár?

Veruleg þynning byggðar undanfarna áratugi

Reykjavík er stærsta sveitarfélag landsins og gegnir lykilhlutverki ef takast á að þétta byggð. Þau sveitarfélög sem hafa stækkað hraðast undanfarna áratugi eru Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður. 

Hefur þetta leitt til þess að hærra hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu búa nú í áðurgreindum sveitarfélögum en áður. Samhliða þessu hefur byggð þynnst verulega undanfarna áratugi. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga eftir sem áður erindi við miðbæinn og nærliggjandi svæði enda er þar mestur þéttleiki vinnustaða, skólabygginga, íþróttamannvirkja og verslunar- og skrifstofuhúsnæðis auk annarra innviða. Þetta hefur aukið álagið á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. 

Afleiðingin er umferðartafir, mengun og aukin slysatíðni með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið í heild. Þegar horft er svo á væntanlegt framboð næstu ára (samkvæmt talningu Samtaka Iðnaðarins) er ekki útlit fyrir að þessari þróun verði snúið við. Reykjavík stækkar hlutfallslega hægar en höfuðborgarsvæðið í heild og munu því önnur sveitarfélög áfram stækka hraðar. 

Þetta hlýtur að kalla á spurninguna; Er Reykjavík að gera nóg til að þétting byggðar nái fram að ganga?

Höfundur er sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×