Viðskipti innlent

Stýrivextir hækka, krónan veikist og atvinnuleysi eykst

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rekstrarörðugleikar í ferðaþjónustunni spila rullu í nýrri hagspá greiningardeildar Arion banka.
Rekstrarörðugleikar í ferðaþjónustunni spila rullu í nýrri hagspá greiningardeildar Arion banka. Stöð 2/Arnar Halldórsson
Eftir sterkan fyrri árshelming 2018 er útlit fyrir að hagkerfið sé að snöggkólna að mati greiningardeildar Arion banka. Hagvöxtur á næsta ári verði jafnvel um 1,3 prósent. Í hagspá greiningardeildarinnar fyrir árin 2018 til 2021, sem kynnt var í dag undir yfirskriftinni „Sett í lága drifið,“ segir að óvissan um efnahagshorfur hafi aukist að undanförnu.

Það hafi meðal annars endurspeglast í snarpri gengisveikingu að undanförnu, sem var bæði hraðari og meiri en greiningardeildin vænti. Þá sé jafnframt verðbólguskot í kortunum og áætlar greiningardeildin að verðbólga verði komin yfir vikmörk Seðlabankans, sem eru 2,5 prósent, strax á næsta ári.

Skotið muni þó standa stutt yfir - „enda trúlegt að peningastefnunefnd muni bregðast hart við.“ Greiningardeildin telur þannig ekki útilokað að stýrivextir verði komnir yfir fimm prósent um mitt ár 2019. Meginvextir bankans eru nú 4,25 prósent.

Að sama skapi hafi átök á vinnumarkaði og rekstrarerfiðleikar í ferðaþjónustunni valdið titringi í íslensku efnahagslífi á síðustu misserum. Allt hafi þetta aukið svartsýni í hagkerfinu. 

Vinnumarkaðsátökin munu að mati greiningardeildarinnar leiða til launahækkana umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu. Hækkunin muni því ekki samrýmast verðstöðugleika. Af þeim sökum, samhliða hægari efnahagsumsvifum, muni atvinnuleysi koma til með að aukast. 

Nánar má fræðast um hagspá greiningardeildarinnar með því að smella hér.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×