Mahrez skaut City á toppinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mahrez skoraði eina mark kvöldsins.
Mahrez skoraði eina mark kvöldsins. vísir/getty
Riyad Mahrez tryggði Manchester City 1-0 sigur á Tottenham á Wembley í kvöld í síðasta leik tíundu umferðarinnar.

Leikið var á Wembley sem var langt frá því að vera í sínu besta standi. NFL-leikur fór fram á vellinum í gær og leit völlurinn vægast sagt hörmulega út.

Fyrsta og eina mark leiksins kom strax á sjöttu mínútu. Langur bolti frá Ederson endaði hjá Raheem Sterling sem fór illa með Kieran Trippier og lagði boltann á Riyad Mahrez sem skoraði.

City hafði öll tök á leiknum í fyrri hálfleik og hefði getað bætt við marki en náði því ekki. Staðan því einungis 1-0 er liðin gengu til búningsherbergja.

Það var ekki mikill sóknarþungi Tottenham í síðari hálfleik en þegar tíu mínútur voru eftir fengu þeir algjört dauðafæri. Erik Lamela var einn gegn Ederson en mokaði boltanum hátt yfir markið.

Ekki náði Tottenham að skora þrátt fyrir ágætis pressu undir lokin en það var of seint. Afar sterkur 1-0 útisigur Manchester City sem er á toppnum, ásamt Liverpool, með 26 stig.

Tottenham er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig, einu stigi á eftir grönnunum í Arsenal sem eru í fjórða sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira