Fótbolti

Sísí Lára í bikarúrslitin á kostnað Svövu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir
Svava Rós Guðmundsdóttir fréttablaðið
Sigríður Lára Garðarsdóttir og stöllur í norska liðinu Lilleström eru komnar í bikarúrslit eftir sigur á Röa í vítaspyrnukeppni í undanúrslitaleiknum.

Fyrir leikinn hafði Lilleström ekki tapað fyrir norsku liði í rúmlega ár. Útlitið var þó ekki gott því þær voru lentar 3-0 undir í upphafi seinni hálfleiks. Line Holter skoraði fyrir Röa strax á fyrstu mínútu og Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði annað mark Röa á 23. mínútu.

Rebecka Holum kom heimakonum í 3-0 stax á 46. mínútu. Þá hins vegar tók lið Lilleström við sér og Anja Sönstevold minnkaði muninn þremur mínútum seinna.

Guro Reiten og Sophie Haug náðu að knýja fram framlengingu með mörkum á 66. og 85. mínútu.

Í fyrri hálfleik framlengingarinnar fékk Svava Rós dauðafæri á að tryggja Röa sigurinn en hún hitti ekki á markið ein á móti markmanni.

Hvorugt liðið náði að skora í framlengingunni og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Þegar bæði lið voru búin með þrjár spyrnur var staðan 1-2 fyrir Lilleström. Sönstevold skoraði úr fjórðu spyrnu Lilleström og ljóst að næsta spyrna yrði að fara inn hjá Röa.

Það var íslenska landsliðskonan sem var næst í röðinni hjá Röa, hún fór á punktinn en skaut í þverslána og þar með var leikurinn úti, Lilleström fer í bikarúrslitin.

Sigríður Lára kom ekkert við sögu í leiknum í liði Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×