Sport

Frábært ár varð stórkostlegt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðbjörg Jóna.
Guðbjörg Jóna. Vísir/Skjáskot
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í 200 metra hlaupi á Ólympíu­leikum ungmenna í Buen­os Aires í Argentínu í gærkvöldi.

Keppt var með nýstárlegu fyrirkomulagi en samanlagður árangur í tveimur umferðum gilti til sigurs í 200 metra hlaupinu.

Guðbjörg kom langfyrst í mark í fyrri umferðinni á laugardaginn á nýju Íslandsmeti, 23,55 sekúndum. Leticia Maria Nonato Lima frá Brasilíu varð önnur á 24,16 sekúndum. Hún endaði í 3. sæti í heildina.

Í seinni umferðinni í gærkvöldi sló Guðbjörg „gamla“ Íslandsmetið sitt er hún kom önnur í mark á 23,47 sekúndum.

Dalia Kaddari frá Ítalíu varð hlutskörpust í seinni umferðinni (23,45 sekúndur) en Guðbjörg var með bestan samanlagðan árangur (47,02 sekúndur) og stóð því uppi sem sigurvegari. Stórkostlegur árangur hjá Guðbjörgu sem hefur alla burði til að ná enn lengra.

Þessi 16 ára ÍR-ingur hefur átt magnað ár þar sem hún hefur m.a. slegið Íslandsmetið í 200 metra hlaupi í þrígang.

Á Evrópumeistaramóti 18 ára og yngri í Ungverjalandi í sumar vann hún til gullverðlauna í 100 metra hlaupi og fékk svo brons í 200 metra hlaupi. Þá varð hún einnig Íslands- og Norðurlandameistari á árinu.

Á Smáþjóðameistaramóti í Vaduz í Liechtenstein í júní bætti Guðbjörg 21 árs gamalt Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur í 200 metra hlaupi þegar hún hljóp á 23,61 sekúndu.

Hún bætti eigið Íslandsmet í fyrri umferðinni á Ólympíuleikum ungmenna á laugardaginn og svo aftur í gærkvöldi. Íslandsmetið í 200 metra hlaupi stóð óhreyft í 21 ár en hefur nú verið slegið í þrígang á rúmum fimm mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×