Enski boltinn

Gylfi í liði umferðarinnar hjá BBC

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór SIgurðsson fagnar marki á móti Fulham.
Gylfi Þór SIgurðsson fagnar marki á móti Fulham. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson komst heldur betur aftur í gang í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina þegar að Everton vann flottan og sannfærandi sigur á nýliðum Fulham, 3-0.

Gylfi skoraði tvö af þremur mörkum Everton í leiknum og fékk tækifæri til að skora þrennu en hann brenndi af vítaspyrnu. Þetta var í fyrsta sinn sem að hann klúðrar vítaspyrnu í ensku úrvalsdeildinni.

Garth Crooks, sérfræðingur BBC um ensku deildina, velur Gylfa í lið umferðarinnar fyrir frammistöðu sína en Crooks hefur valið lið vikunnar um árabil og er þetta ekki í fyrsta sinn sem íslenski landsliðsmaðurinn er á meðal þeirra ellefu bestu.

Gylfi er á miðjunni með Mark Noble sem lagði Manchester United með West Ham en á vængjunum í 3-4-3 kerfi Garth Crooks eru Mesut Özil og Gigi Wijnaldum.

„Það er fátt sem kemur mér meira á óvart í fótbolta en að sjá leikmenn sem geta skorað glæsileg mörk af löngu færi eiga í basli með að skora einföld mörk. Gylfi skoraði tvö falleg mörk á móti Fulham en klúðraði víti,“ segir Crooks um Gylfa.

Einnig kemur fram að Gylfi skapaði fimm færi fyrir félaga sína í leiknum en enginn gerði betur í Everton-liðinu. Gylfi er á meðal hæstu manna í deildinni þegar kemur að því að skapa færi fyrir samherja sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×