Fótbolti

Guðni Bergsson: Elísabet vildi halda áfram að þjálfa í Svíþjóð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. vísir/getty
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir það ekki vera rétt sem um er rætt að Elísabet Gunnarsdóttir hafi ekki verið ráðin landsliðsþjálfari kvenna þar sem hún búi ekki á Íslandi.

Elísabet hefur átt afar farsælan feril í þjálfun og margir sem vildu sjá hana taka við liðinu af Frey Alexanderssyni. Hún hefur aftur á móti útilokað að taka við liðinu núna.

„Þessi umræða var ekki alveg á réttum nótum. Er við spjölluðum saman kom fram að það væri æskilegt að hún væri hér á landi yfir sumartímann þar sem meirihluti landsliðsmannanna spilar hér á landi. Það var ekkert skilyrði að viðkomandi væri búsettur hér heima,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um málið og bætir við.

„Þetta var svo ekki rætt neitt frekar því hún vildi halda áfram störfum hjá félagsliði sínu í Svíþjóð. Það var ástæðan fyrir því að viðræður fóru ekki lengra. Það var ekki búsetan sem slík sem var hindrun.“

Starf landsliðsþjálfara kvenna hefur verið fullt starf undanfarin ár og Guðni vonast til þess að finna nýjan þjálfara á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×