Körfubolti

Ólöf Helga biður dómarana afsökunar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólöf Helga í einu af leikhléum kvöldsins.
Ólöf Helga í einu af leikhléum kvöldsins. vísir/skjáskot
Ólöf Helga Pálsdóttir Woods, þjálfari kvennaliðs Hauka, hefur beðist afsökunar á ummælum sínum eftir leik Hauka og Keflavíkur í Meistarakeppni KKÍ í gær.

RÚV greinir frá þessu og vitnar í tilkynningu frá Ólöfu.

Haukar töpuðu fyrir Keflavík með sex stigum, 83-77. Ólöf Helga var ósátt í leikslok og lét hörð orð falla um dómara leiksins.

„Já, mér finnst mjög ósanngjarnt hvernig það er leyft að lemja á Lele. Það eru þrír leikmenn að lemja á henni á sama tíma en dómararnir dæma ekkert af því hún er svo stór og sterk. Þetta er bara ósanngjarnt og bara svindl,“ sagði Ólöf Helga við Vísi.

Yfirlýsing Ólafar Helgu:

„Vegna ummæla minn eftir leik Hauka og Keflavíkur í Meistarar Meistarana vil ég biðja dómara leiksins innilega afsökunar og koma eftirfarandi orðum á framfæri: Það var ekki ætlun mín að saka dómara leiksins um svindl. Ég tók klaufalega til orða í hita augnabliksins og sé mjög mikið eftir því. Dómararnir höfðu engin áhrif á úrslit leiksins, heldur sinntu þeir sinni vinnu svo best þeir gátu og það var mjög ósanngjarnt af minni hálfu að draga heilindi þeirra í efa að leik loknum.“

„Það góða sem ég vil taka út úr þessum leik og eftirmálum er að ég gerði stór mistök í frumraun minni sem þjálfari í efstu deild og mun læra af þeim og vanda mig betur í framtíðinni. Vil ég einnig nota tækifærið og þakka dómurunum fyrir góð og uppbyggileg samskipti á meðan á leiknum stóð og eftir hann og vona að þetta upphlaup muni ekki hafa áhrif á okkar samstarf í framtíðinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×