Enski boltinn

Aðeins Sterling og Hazard eru að spila betur en Gylfi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór fagnar öðru marki sínu á móti Fulham.
Gylfi Þór fagnar öðru marki sínu á móti Fulham. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er í þriðja sæti á nýjum topplista (e. Power Rankings ) ensku úrvalsdeildarinnar sem Sky Sports tekur saman eftir hverja umferð en aðeins Eden Hazard, leikmaður Chelsea, og Raheem Sterling, leikmaður Manchester City, eru að spila betur þessa dagana.

Topplistinn tekur mið af 34 tölfræðiþáttum en inn í tölunum eru fimm síðustu leikir í deildinni og gilda nýjustu leikirnir hvað mest.

Það hentar Gylfa ágætlega því hann fór á kostum í síðustu umferð á móti Fulham þar sem að hann skoraði tvö mörk en brenndi af vítaspyrnu. Hann er með 8,162 stig en Sterling er sá eini sem kemst yfir 9.000 stiga múrinn á listanum.

Jóhann Berg Guðmundsson er líka í fínu formi með Burnley en hann lagði upp og skoraði í 2-1 sigri Burnley um síðustu helgi. Þetta var annar leikurinn í röð sem að hann kemur með beinum hætti að marki hjá Burnley-liðinu.

Jóhann Berg er í 23. sæti á uppleið með 5,239 stig en hann er fyrir ofan stórstjörnur á borð við Pierre-Emerick Aubameyang, Aymeric Laporte og Liverpool-manninn Roberto Firmino.

Gylfi er efstur allra í Everton-liðinu en Joe Hart er að spila betur fyrir Burnley samkvæmt tölfræðinni. Hann er með 5,898 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×