Lífið

Bjarni Ben og Páll Óskar ræða sín fyrstu skipti

Stefán Árni Pálsson skrifar
Palli og Bjarni tóku glaðir þátt.
Palli og Bjarni tóku glaðir þátt.
Fimm hafnfirsk ungmenni sem vinna að leiksýninguni „Fyrsta skiptið“ hafa undanfarna daga farið óhefðbundnar leiðir í kynningarstarfi.

Þannig hafa þau Arnór, Berglind Alda, Inga Steinunn, Mikael Emil og Óli Gunnar flakkað vítt og breitt um bæinn og spurt þjóðþekkta Íslendinga um sín „fyrstu skipti“.

Í leikritinu verður fjallað um málefni sem margir álíta viðkvæm og persónuleg, á borð við fyrsta kossinn, fyrstu ástina og fyrstu kynlífsreynsluna. Út í þetta spyrja þau þá sem á vegi þeirra verða, taka upp á síma og birta á netinu.

Ráðherrann ræddi bara kossinn

Meðal þeirra sem ræða málin við krakkana eru fjármálaráðherrann og formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson og skemmtikrafturinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Ráðherrann vildi þó ekki ganga lengra en að segja lauslega frá fyrsta kossinum.

„Ég var í barnaskóla til tólf ára aldurs, sem nú heitir grunnskóli. Áður en ég fór í gagnfræðiskólann, eins og þá hét, þá var svolítið kossaflens í okkar barnaskólabekk og þá kom fyrsti kossinn. Þá var ég ellefu ára,“ segir Bjarni.



Palli pikkaði upp eldri mann í Vesturbæjarlaug

Páll Óskar var aftur á móti tilbúinn að deila mun meiru og segir frá fyrstu kynlífsreynslunni, eftir sundferð í Vesturbæjarlaug þegar hann var sautján ára gamall.

„Í heitu pottunum þá var það bara ég sem pikkaði þennan gaur upp. Ég var sautján ára, hann var þrjátíu og eins. Við elskuðum þetta. Ég lét það sko ekki stoppa mig, við fórum heim til hans,“ segir Páll Óskar.



Frásögnina má sjá í heild sinni í þætti kvöldsins af Íslandi í dag, ásamt viðtali við aðstandendur sýningarinnar. Þátturinn hefst klukkan 18:55, strax eftir kvöldfréttir í opinni dagskrá á Stöð 2.









Fleiri fréttir

Sjá meira


×