Skoðun

Frjáls landamæri

Kristófer Alex Guðmundsson skrifar
Alþjóðlegt samstarf getur leitt til frjálsra fólksflutninga, eflt viðskipti og viðhaldið vinaböndum. Hér á Íslandi eru lífsgæðin mikil og tækifærin mörg. Öll viljum við viðhalda árangri og bæta um betur. Þrátt fyrir það er til fólk sem heldur því fram að nú sé best að draga úr alþjóðlegu samstarfi, halda fastar í landamæri, auka tolla á innfluttar vörur og fækka innflytjendum. Fólk kann einfaldlega að spyrja, „hvers vegna að opna landamæri?“ Hvers vegna „varðveitum“ við ekki árangurinn okkar með því að þrengja að landamærum? Við myndum bara flytja inn hluti sem okkur bráðvantar eins og hnetusmjör, hárteygjur og ísskápasegla og flytja út allt sem við mögulega getum eins og fisk, hugbúnað og ferðaþjónustu. Hvað varðar innflytjendur þá gætum við bannað þeim að setjast að á Íslandi, með þeirri von um að þá gætum við „hlúð betur“ að Íslendingum. Stenst slíkt?

Ísland er aðili að samstarfi sem m.a. fellir niður tolla af innfluttum (og sömuleiðis útfluttum) vörum að miklu leyti. 25 ár eru frá inngöngu Íslands í samstarfið með undirritun samnings um Evrópskt efnahagssvæði en hann mætti harðri andstöðu einangrunarsinna sem töldu að innlend framleiðsla myndi hverfa og hagkerfi landsins versna. Vissulega áttu sum fyrirtæki brattan að sækja enda jókst samkeppnin til muna, en á móti tvíefldust önnur sem fundu tækifæri í 500 milljóna manna markaði. Dómsdagspárnar rættust ekki heldur blómstraði land og þjóð í þessu alþjóðlega samstarfi, sem aldrei fyrr.

Þegar talað er um að herða innflytjendalöggjöf af t.d. efnahagsástæðum gleymist í umræðunni að Íslendingar þekkja það vel að flytja af landi brott sökum efnahagsástands. Frægar eru ferðir Vestur-Íslendinga og Brasilíufaranna. Ekki þarf að fara svo langt aftur í tímann til þess að finna fleiri dæmi um flutninga Íslendinga, en tíu ár eru frá einum stærsta brottflutning Íslandssögunar. Ef slíkt sannfærir fólk ekki um réttmæti viðveru útlendinga á Íslandi þá ber að hafa í huga að nýbúar skipta sköpum fyrir gang samfélagsins hér á landi. 11,5% íbúa á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar og fimmti hver starfsmaður á Íslandi er erlendur. Ekki er hægt að halda því fram að atvinnuþátttaka útlendinga komi niður á Íslendingum þar sem atvinnuleysi er nálægt sögulegu lágmarki í ríflega 2%. Nýjasti þáttur Kveiks sýnir öllu heldur að stjórnvöld hafa brugðist stórum hópi innflytjenda sem búa við hatrammar aðstæður og eru svikin um laun. Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð og taka á slíku óréttlæti tafarlaust.

Evrópska efnahagssvæðið gerir Íslendingum kleift að búa og vinna víðsvegar um Evrópu og sömuleiðis íbúum Evrópu að flytja hingað og starfa. Samstarfið er eitt hagsælasta ummerki þess að opin landamæri stuðla að frelsi íbúa. Um 47.000 Íslendingar búa erlendis, flestir innan EES. Frjáls landamæri eru ekki einungis hagkvæm á efnahagsgrundvelli heldur stuðla þau að auknum friði, fleiri tækifærum fyrir ungt fólk og fjölmenningu. Hið síðastnefnda er orð sem oft er notað sem skammaryrði en sagan sýnir okkur að frelsi og velmegun þrífst best í fjölbreyttum samfélögum.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×