Enski boltinn

Stjóri Jóhanns Bergs segir HM hafa verið skrípaleik þegar kom að dýfum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Knattspyrnustjórinn Dyche horfir á Jóhann Berg í baráttunni
Knattspyrnustjórinn Dyche horfir á Jóhann Berg í baráttunni vísir/getty
Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley í ensku úrvalsdeildinni, telur að ekki sé nóg gert til að reyna að útrýma dýfum og öðru svindli í fótboltanum.

Burnley vann Cardiff, 2-1, um síðustu helgi en leikurinn vakti nokkra athygli og það af röngum ástæðum því boltinn var aðeins 42 mínútur í leik.  Burnley-menn voru ansi mikið í því að tefja leikinn en boltinn hefur ekki verið minna inn í leik í sjö ár í ensku úrvalsdeildinni.

Dyche finnst þetta þó ekki eitthvað áhyggjuefni og hvað þá forgangsatriði hjá þeim sem að sjá um löggjöfina í fótboltanum.

„Ef það á að fara að laga fótboltann þarf að útrýma svindli. Svo einfalt er það. Það eru allir sammála um að HM var bara skrípalegur þegar kom að svindli. Allir hljóta að vera sammála um það,“ segir Dyche.

„Mér er alveg sama hvaðan þú kemur. Ef þú varst að horfa á HM hlýturðu að vera sammála mér að þetta er orðið algjört rugl. Í dag eru menn að henda sér niður í úrvalsdeildinni og þeim er alveg sama því þeim er ekkert refsað eftir á. Það er ekkert gert!“

„Fleiri og fleiri leikmenn eru farnir að henda sér niður en það er minna talað um þetta því dómararnir eru hættir að spjalda. Þetta er að gerast því enginn vill taka á þessu,“ segir Sean Dyche.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×