Íslenski boltinn

Jón Rúnar: Hjálpar ekki til að sérsamböndin seilist í sama lækinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að það verði erfiðara með hverju árinu að safna peningum til að reka knattspyrnudeildir landsins á meðan leikmannahóparnir verða dýrari og dýrari.

Í gær fjölluðu Stöð 2 og Vísir um Fjölnismenn þar sem þeir ræddu um að erfitt væri að safna peningum til að halda út sterku liði í Pepsi-deild karla því margir eru að keppast um sömu styrktaraðilana.

„Ef við horfum á tvö síðustu ár þá held ég að vandinn hafi aukist; bæði að í tveimur efstu deildunum hafa liðin orðið dýrari og um leið hefur styrkjum fækkað og styrkir hafa minnkað,” sagði Jón Rúnar en við hverja er að sakast?

„Hvort er um að kenna að aðrir séu að taka styrkina, sérsamböndin eða eitthvað annað, skal ég ekki segja - en það hjálpar ekki til að sérsamböndin seilist í sama lækinn og við erum að gera. Það hjálpar ekki til.”

Undanfarin ár hefur KSÍ greitt félögunum nokkrar milljónir vegna góðs gengis á EM og HM en Jón Rúnar bendir á að það dugi skammt.

„Þetta eru okkar peningar og það er verið að borga okkur út arð. Þetta eru 650 milljónir en skiptist mjög víða. Hver sneið mettir ekki marga. Þeir sem fengu mest í fyrra voru 18 milljónir og núna einhverjar sjö til átta.”

„Vissulega hjálpar þetta en þetta eru bara tvö síðustu ár. Það eru mörg ár þar á undan sem hafa liðið. Það er ekkert endilega svo bjart að það verði mikið á næstu árum en vonandi verður það."

„Þetta hjálpar til en vandinn er meiri en þetta."

Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í sjónvarpsglugganum efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×