Handbolti

Hægt að vinna treyju Ólafs í aðdraganda Íslendingaslags í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Guðmundsson gefur áritaða treyju.
Ólafur Guðmundsson gefur áritaða treyju. vísir/epa
Leikur vikunnar í þriðju umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta er viðureign Íslendingaliðanna Kristianstad frá Svíþjóð og Barcelona frá Spáni.

Æskuvinirnir og fyrrverandi samherjarnir Ólafur Guðmundsson og Aron Pálmarsson mætast í leiknum en Hafnfirðingarnir sem ólust upp hjá FH voru t.a.m. saman í U19 ára landsliðinu sem fékk brons á HM árið 2009. Þá hafa þeir spilað fjöldan allan af A-landsleikjum saman.

Fleiri Íslendingar eru reyndar á mála hjá sænsku meisturunum en línumaður Arnar Freyr Arnarsson er á sínu þriðja tímabili í Svíþjóð og þá gekk stórskyttan örvhenta Teitur Örn Einarsson til liðs við Kristianstad í sumar.

Leikmaður frá heimaliðinu í leik vikunnar býður alltaf áritaða treyju fyrir þann sem að giskar á rétt úrslit í leiknum en það er hægt að gera með því að smella hér. Treyja Ólafs Guðmundssonar er í boði að þessu sinni.

Barcelona er með tvö stig í A-riðlinum eftir frábæran sigur á Veszprém í síðustu umferð en sænsku meistararnir eru búnir að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum og þurfa á sigri að halda gegn spænska stórveldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×