Innlent

Lögreglan segir umferð hafa gengið ágætlega þó að umferðarljósin væru óvirk

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglustöðin var rafmagnslaus en ljósavél sá henni fyrir rafmagni.
Lögreglustöðin var rafmagnslaus en ljósavél sá henni fyrir rafmagni. Vísir/Vilhelm
Bilun í rafstöð varð til þess að öll umferðarljós vestan Rauðarárstígs í Reykjavík urðu óvirk á fjórða tímanum í dag. Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að umferð hafi þrátt fyrir það gengið ágætlega þar sem hægst hafi á henni og ökumenn verið varir um sig.

Umferðarljósin eru hægt og bítandi að tínast aftur inn að sögn Guðbrands og verða vonandi öll orðin virk á mesta álagstímanum í síðdegisumferðin. Að sögn Guðbrandar var ekki mikið um tafir á meðan ljósin voru úti.

Lögreglan greip ekki til þess bragðs að stjórna umferð á meðan rafmagnsleysinu stóð, heldur eru umferðarmerki við ljósin sem gefa til kynna hvort ökumenn þurfi að sinna biðskyldu áður en farið er yfir gatnamót. Slík umferðarmerki eru sett upp fyrir tilvik sem þessi, þegar rafmagn fer af.

Rafmagnið fór af hverfum 105 og 107, að Hlíðahverfi og Vesturbænum, og þar á meðal á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Guðbrandur segir ljósavél hafa skaffað lögreglustöðinni rafmagn og því voru talstöðvar virkar en borðsímar og tölvur voru án sambands. 

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur er rafmagn komið á á stórum hluta þess svæðis þar sem bilunin varð, það er að segja í spennustöð við Barónsstíg, og er vonast til að viðgerð ljúki fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×