Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Fjölnir 7-0 | Fjölnismenn niðurlægðir í Árbænum

Guðlaugur Valgeirsson á Flórídana-vellinum í Árbæ skrifar
vísir/bára
Fylkismenn tóku á móti Fjölni í 22.umferðinni í Pepsi-deild karla í dag. Bæði lið höfðu að litlu að keppa en fyrir leik var Fjölnir fallið og Fylkismenn voru öruggir með sæti sitt.

 

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en á 27.mínútu byrjaði ballið. Fylkismenn komust þá yfir með frekar skondnu marki, þeir áttu langa og frekar hættulausa fyrirgjöf inn í teig þar sem Þórður kom út til að grípa boltann en hann hleypur á varnarmann og missir boltann, þá mætir Daði Ólafsson og leggur boltann nokkuð auðveldlega í markið. 1-0 fyrir Fylki.

 

Það var svo á 38.mínútu sem að Fylkismenn bættu við öðru markinu og þar var á ferðinni markahrókurinn Albert Brynjar Ingason. Emil Ásmundsson fékk sendingu á miðjum vallarhelming Fjölnis, hljóp með boltann að teignum gaf hann svo fyrir á Albert sem var svo gott sem einn fyrir utan teig og lagði boltann frábærlega í fjærhornið. 2-0 fyrir Fylki.

 

Fylkismenn voru ekki hættir í fyrri hálfleik því þeir bættu við þriðja markinu einungis þrem mínútum síðar og þá var það Hákon Ingi Jónsson. Boltinn kom inn í teig Fjölnis og Torfi Tímoteus ætlar að hreinsa boltann frá en gefur hann beint á Hákon Inga sem rennur boltanum í hornið fjær. 3-0 fyrir Fylki.

 

Stuttu seinna var flautað til hálfleiks. 3-0 var staðan og lítið annað en stórsigur í kortunum fyrir Fylki.

 

Seinni hálfleikurinn byrjaði nokkuð og lítið sem gerðist fyrstu 15 mínúturnar fyrir utan það þegar Guðmundur Karl Guðmundsson fékk rautt spjald á 52.mínútu fyrir að tuða í dómara leiksins. Hann var ósáttur með að fá ekki aukaspyrnu og hætti ekki að tuða í Helga dómara og uppskar rautt spjald fyrir. Spurning hvort hann hafi sagt eitthvað slæmt.

 

Það var svo á 66.mínútu sem að Albert Brynjar var aftur á ferðinni en þá skoraði hann frábært mark eftir hornspyrnu sem Oddur Ingi tók. Spyrnan fór beint á kollinn á Orra Sveinn sem skallaði að Alberti sem klippti boltann frábærlega í markið án þess að Þórður næði að verja. 4-0 fyrir Fylki.

 

Fylkismenn héldu bara áfram eftir þetta og bættu við fimmta markinu á 74.mínútu þegar varamaðurinn Jonathan Glenn skoraði mjög svo skrautlegt mark eftir enn ein mistök Þórðar og varnamanna Fjölnis sem áttu vægast satt vondan dag. 5-0 fyrir Fylki.

 

Glenn var svo aftur á ferðinni 7 mínútum seinna þegar Albert Brynjar átti flotta fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Glenn mætti með stóru tánna og setti boltann örugglega í markið. 6-0 fyrir Fylki og ballið ekki ennþá búið.

 

Albert Brynjar kórónaði síðan frábæran leik sinn með því að fullkomna þrennuna á 83.mínútu þegar hann komst inn í sendingu til baka á Þórð og renndi boltanum nokkuð örugglega í markið.

Stuttu seinna tók stúkan Víkingaklappið og stuðningsmenn Fylkis ánægðir með sína menn.

 

Helgi Mikael dómari leiksins gerði síðan Fjölni greiða og bætti engu við og flautaði til leiksloka. 7-0 fyrir Fylki á svokölluðum vígsluleik nýja vallarins.

 

Af hverju vann Fylkir?

Voru einfaldlega miklu betri í þessum leik. Fjölnir byrjuðu ágætlega en eftir þetta fyrsta markið þá var nokkuð ljóst að það yrðu Fylkismenn sem myndu vinna leikinn. Það skipti litlu máli hvað Fjölnir reyndu það gekk einfaldlega ekkert upp.

 

Fylkir gerðu vel í sínu og í hvert sinn sem Fjölnir gerði mistök þá refsuðu Fylkismenn þeim með mörkum.

 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Fjölnis var lítill sem enginn, Birnir ætlaði að sýna sig og sanna í þessum leik en það gekk lítið upp hjá honum. Vörnin var litlu skárri og þeir félagar í miðverðinum Torfi og Bergsveinn vilja líklega gleyma þessum leik sem fyrst.

 

Þórður náði sér engan veginn á strik og gerði sig sekan um nokkur mistök.

 

Hvað gerist næst?

Fjölnismenn þurfa að bíta í það súra epli að leika í Inkasso deildinni árið 2019. Spurning hvort þeir verði komnir aftur í Pepsi-deild karla 2020 en það er erfitt miðað við hvernig þeir enda mótið og hvað gerist með leikmanna- og þjálfaramál.

 

Fylkismenn geta vel við unað en þeir enda að lokum í 8.sæti sem er mjög góður árángur miðað við það að þeir voru í fallsæti um mitt mót.  Spurning hvort þeir haldi þjálfaranum Helga Sig en hann hefur verið orðaður við Víking.

 

 

Óli Palli: Skipulagsleysi, karaktersleysi og agaleysi

„Nei því miður, ég veit það bara ekki” sagði daufur Ólafur Páll Snorrason þjálfari Fjölnis þegar hann var spurður út í það hvað Guðmundur Karl hefði sagt við Helga dómara.

 

Hann sagðist búast við einhverjum mannabreytingum í vetur, „já ég held að það sé nokkuð ljóst að það eru einhverjir sem fara”.

 

Þegar hann var spurður út í hvað hefði aðallega klikkað í dag þá sagði hann þá hafa gefið 4 mörk.

 

„Við gáfum þeim 4 mörk, það er náttúrulega númer 1, svo er agaleysi, karaksterleysi, skipuleysi, viljaleysi og það sýndi sig í leiknum í dag, sumarið í heild sinni að leikmenn voru bara ekki tilbúnir í þetta.”

 

Hann var hinsvegar ánægður með byrjunina sem var það eina jákvæða hjá Fjölni í dag.

 

„Það var svona 10 mínútna kafli þarna fyrstu 15 mínúturnar sem voru ágætar en eftir þær og fyrsta markið sáum við aldrei til sólar.”

 

Helgi Sig: Frábært að enda svona

„Frábær leikur í dag og frábært að enda svona í 8.sæti með 26 stig, maður hefði tekið þetta fyrir mót og erum bara mjög sáttir og verið öflugir í seinustu leikjum,” sagði ánægður Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis en þeir voru án Ólafs Inga og Ásgeirs Börk í þessum leik en það breytti engu, það gekk bara allt upp.

 

„Við erum með góða liðsheild og fullt af góðum leikmönnum, það vantar ekki hjá okkur í Fylki og menn voru tilbúnir að leggja 100% á sig í að ljúka þessu móti með stæl, það gerðum við og strákarnir eiga allt kredit fyrir það. Það er allt annað að fara í frí með sigur heldur en tap á bakinu.”

 

Aðspurður hvort hann yrði áfram við stjórnvölinn hjá Fylki sagði hann að það væri ekkert öruggt í þessu en það líti út fyrir það.

 

„Ekkert öruggt í þessu en það lítur út fyrir það, mér líkar mjög vel hérna og þetta hafa verið 2 frábær ár hérna og það er eitthvað sem er mjög spennandi að byggja ofan á,” sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis.

 

Bergsveinn Ólafs: Allt sem klikkaði í dag

Bergsveinn var þokkalega sáttur með byrjunina í dag en svo hrundi þetta allt hjá þeim.

 

„Byrjum ágætlega, spila fínt finnst mér þangað til fyrsta markið og allt hrynur eftir það. Hvað klikkaði? Einstaklingsmistök og eiginlega bara allt.

 

Hann sagðist ekki vita hvað Guðmundur Karl sagði en það hlyti að hafa verið eitthvað slæmt fyrst hann fékk beint rautt spjald. „ég heyrði hann blóta honum eitthvað og lét hann vel heyra það en fyrst Helgi gefur rautt þá hlýtur það að vera rétt, maður verður að treysta dómaranum í því að gera rétt

 

Aðspurður hvort hann verði áfram í Fjölni sagðist hann ekki vera viss en hann er samningsbundinn út næsta ár.

 

„Ég veit það ekki en við sjáum til hvað verður, eins og staðan er núna þá verður hann áfram.

 

Að lokum sagði hann að það væri klárlega vilji til þess að vera áfram og koma sínum uppeldisklúbb upp í Pepsi-deildina aftur þar sem Fjölnir á heima. „Já klárlega, það er stefnan hjá klúbbnum að gera eins og Fylkir, fara niður og koma sterkir upp aftur, það eru margir ungir strákar að koma upp og það þarf að byggja grunn á þeim. Það er eina vitið”.

 

Albert: Var að njóta þess að spila í dag

„Frábær sigur hjá okkur, duttum aðeins niður um miðbik fyrri hálfleiks en ennþá sætara að koma til baka og hvernig við unnum okkur úr því veseni og svo var seinni hálfleikurinn bara frábær,” sagði Albert Brynjar Ingason framherji Fylkis sem skoraði þrennu í dag en hann var frábær í fremstu víglínu Fylkismanna.

 

Aðspurður út í markaleysið fyrr í sumar sagði hann að þegar hann spilar frammi þá fær hann færi og það hafi vantað að klára þau vel.

 

„Búinn að vera oft á kantinum aðeins í sumar til skiptis og þá er ég meira að draga mig út og setja boltann fyrir en í dag og síðustu leiki hef ég fengið að vera meira frammi og það eina sem hefur vantað er að klára færin og maður fer að ofhugsa þetta þegar ekkert gengur en eftir fyrsta markið kom sjálfstraustið og maður var að njóta þess að spila í dag.”

 

Aðspurður um árangurinn í sumar, 8.sæti sagðist Albert vera mjög sáttur.

 

„Frábær árángur, okkar markmið innan hópsins var að tryggja sæti okkar í deildinni og svo byggja ofan á það, auðvitað vildum við gera það fyrr í sumar og svo bara reyna klífa upp deildina en það gerðist ekki fyrr en í næstsíðasta leik en við vissum að við gætum farið ofar og það er frábært að enda mótið á svona veislu.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira