Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - KR 2-3 | KR fékk síðasta Evrópusætið

Skúli Arnarson í Víkinni skrifar
Pálmi Rafn hefur verið að spila vel fyrir KR.
Pálmi Rafn hefur verið að spila vel fyrir KR. vísir/bára
KR tryggðu sér fjórða sætið með 2-3 sigri á Víking Reykjavík á Víkingsvellinum í dag. Fyrir leikinn voru KR og FH jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti en KR voru með þremur mörkum betri markatölu. Það var því ljóst að það væri mikið undir í leiknum í dag en fjórða sætið gefur keppnisrétt í evrópukeppni á næsta tímabili.

KR byrjuðu leikinn af krafti og fengu nokkur álitleg færi fyrstu tíu mínúturnar.  Eftir fyrstu 10 mínúturnar róaðist leikurinn þangað til að Víkingar fengu dæmt víti eftir að Atli Sigurjónsson braut klaufalega á Erlingi Agnarssyni á 19.mínútu leiksins. Vítaspyrnuna tók Rick Ten Voorde og skoraði af miklu öryggi framhjá Beiti í marki KR. Þarna var útlitið svart fyrir KR sem vissu að þeir þyrftu líklega að sigra leikinn til að tryggja sér fjórða sætið.

Víkingar voru þó ekki lengi í paradís því að aðeins þremur mínútum seinna skoraði Óskar Örn Hauksson glæsilegt mark fyrir KR þegar hann fékk sendingu frá Arnóri Sveini, bakverði KR, inn fyrir vörn Víkinga. Óskar tók boltann glæsilega niður áður en hann lék á tvo varnarmenn Víkings inn í teig og hamraði boltanum svo niður í fjærhornið. Eftir mark KR fengu bæði lið ágætis færi til að komast yfir en staðan var samt sem áður 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

KR komu af gífurlegum krafti inn í síðari hálfleikinn og pressuðu Víkinganna stíft. Það skilaði sér á 52.mínútu þegar fyrirgjöf Atla Sigurjónssonar endaði í bláhorninu. Algjörlega óviljandi hjá Atla en KR verðskuldað komnir yfir í leiknum. Eftir þetta mark fengu KR mjög mörg góð marktækifæri en Larsen varði nokkrum sinnum mjög vel í marki Víkings. Það var svo á 62.mínútu sem að KR skoruðu annað mark. Atli Sigurjónsson tók hornspyrnu sem úr varð mikið klafs í teignum. Af varnarmanni Víkings fór boltinn inn og KR því komnir í 1-3.

Næstu mínútur voru KR líklegri til að skora sitt fjórða mark en Víkingar að skora sitt annað. Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Geoffrey Castillion fékk boltann inn í teig KR, sneri af sér varnarmann og setti boltann snyrtilega í hornið, óverjandi fyrir Beiti í marki KR og allt í einu var leikurinn orðinn spennandi aftur.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en KR vissu að þeir mættu ekki fá á sig annað mark ef þeir ætluðu sér að leika í evrópukeppni á næsta tímabili. KR náðu að halda út og unnu á endanum góðan 2-3 sigur í frábærum fótboltaleik.

 

Hversvegna unnu KR?

KR komu af gífurlegum krafti inn í seinni hálfleikinn og skoruðu tvö mörk á 10.mín kafla sem fór illa með Víkinganna. Það var í raun sá kafli sem skildi á milli liðanna í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Óskar Örn Hauksson var flottur í liði KR í dag. Hann skoraði frábært mark og lagði upp mörg góð marktækifæri fyrir liðsfélaga sína í dag. Atli Sigurjónsson var einnig sprækur í liði KR í dag. Í liði Víkings stóð Andreas Larsen upp úr. Hann átti nokkrar frábærar vörslur sem héldu Víking inn í leiknum í dag þrátt fyrir að hann hefði mátt gera betur í öðru marki KR.

Hvað gekk illa?

Víking gekk mjög illa að komast ofarlega á völlinn í síðari hálfleik. Það var ekki fyrr en KR voru farnir að leggjast djúpt niður á lokamínútum leiksins sem að Víkingar náðu loksins að komast með boltann upp völlinn. KR-ingum gekk einnig illa að nýta færin sem þeir fengu í dag en þeir hefðu getað skorað fleiri mörk í dag.

Hvað gerist næst?

Nú er Íslandsmótinu lokið. Víkingar enduðu í níunda sæti og eru á endanum líklega bara sáttir með að sleppa við fall. KR enduðu sem áður segir í fjórða sæti og fagna því líklega, úr því sem komið var, að ná í evrópusæti.

 

Logi Ólafsson: Þetta er búið að vera skrykkjótt hjá okkur

„Við erum svekktir yfir því að hafa tapað leiknum. Mér fannst við vera ágætir í fyrri hálfleik en það sem að drepur okkur er byrjunin á þeim seinni. Við vorum ekki tilbúnir í þá baráttu sem þeir komu með inn þá og þeir ná að skora tvö mörk. Miðað við þau skakkaföll sem við höfum lent í og þá menn sem við erum án í dag þá get ég ekki annað en hælt ungu strákunum sem spiluðu í dag.“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, aðspurðum um fyrstu viðbrögð.

Það var talsvert meira undir hjá KR í dag og Loga fannst munurinn á liðinum að einhverju leyti liggja þar.

„Það er alltaf munur á liðum þegar annað liðið þarf og hitt ekki. Það var gríðarlega mikið í húfi hjá KR og þeir koma hér og stilla upp sínu sterkasta liði, eðlilega, en mér fannst okkar ungu menn standa sig vel á móti þeim.“

Víkingar eru búnir að eiga mjög misjafnt tímabil í sumar.

„Þetta er búið að vera skrykkjótt hjá okkur. Við byrjum vel og svo koma leikir sem við töpum. Svo vinnum við þrjá í röð og svo komum við aftur sterkir núna í lokin. Það er svo margt sem hefur farið úrskeðis hjá okkur í sumar. Við erum bara ánægðir með að vera í deildinni, hefðum viljað enda ofar og þurfum aðeins að skerpa okkur fyrir næsta sumar.“

Aðspurður um framtíð sína hjá félaginu sagði Logi að það ætti eftir að koma í ljós.  

„Framtíðin hjá mér styttist, afþví að ég er að verða svo gamall. Við setjumst bara niður núna og svo kemur eitthvað vitrænt út úr því.”

 

Halldór Smári Sigurðsson: Getum verið ánægðir að halda sæti okkar í deildinni.

Halldór Smári, fyrirliði Víkings, var alls ekki sáttur með mörkin sem Víkingur fékk á sig í dag.

„Fyrst vil ég óska KR til hamingju með evrópusætið. Svo er ég bara gífurlega svekktur með þessi seinni tvö mörk sem við fengum á okkur, þau voru bara kjaftæði.“

Halldór vildi ekki meina að það hefði verið erfitt að undirbúa sig undir svona leik þar sem leikurinn skipti Víking talsvert minna máli en KR.  

„Nei alls ekki. Það var bara benefit fyrir okkur alla að standa okkur vel í dag, sama hvað menn eru að fara að gera næsta tímabil.“

Byrjun síðari hálfleiksins var erfið fyrir Víkinganna í dag.

„Við erum sáttur við fyrri hálfleikinn, tölum um að halda áfram í seinni hálfleik. Svo kemur þetta mark frá Atla utan af kanti og þá brotnuðu menn dálítið niður. Svo kemur annað í kjölfarið. Við náum svo að setja mark og reyndum eins og við gátum að setja annað, en það gekk ekki.“

 

„Fyrir tímabilið hefði ég ekki verið sáttur með níunda sæti og um mitt mót hefði ég ekki verið sáttur með níunda sæti. En eins og þetta spilaðist seinni helminginn þá held ég að við getum bara verið ánægðir með að halda sæti okkar í deildinni.“ sagði Halldór Smári að lokum.

 

Óskar Örn Hauksson: Ég er ekkert sáttur með fjórða sætið.

„Ég er bara hrikalega ánægður að vera kominn í Evrópu. Það er bara það sem við tökum út úr þessu sumri.“ sagði maður leiksins, Óskar Örn Hauksson strax að loknum leik.

KR fengu fjölmörg góð marktækifæri til að klára leikinn í dag en tókst ekki að nýta þau.

 „Við fengum fullt af færum og hefðum átt að vera löngu búnir að klára þennan leik. Svo fáum við þetta mark á okkur og það hleyptu þessu aðeins upp en við náðum að sigla þessu heim, sem betur fer.“

Það var mikil spenna í lokin en Óskar var ekki á því að taugarnar hafi verið farnar að stríða honum.

„Þær voru ágætar, við vorum bara að einbeita okkur að okkar leik. Við vorum yfir og meira gátum við í rauninni ekki gert. Við vorum búnir að reyna að koma inn mörkum og fengum tækifæri til þess.“

KR komu af krafi inn í seinni en það voru þó engar áherslubreytingar í hálfleik hjá KR.

„Við fórum bara yfir stöðuna. Við vorum að gera ágætis hluti í fyrri hálfleik, fengum ágætis færi og við héldum bara áfram að skapa færi, fórum kannski svolítið illa með þau en náðum að setja tvö mörk í seinni hálfleik og það var nóg.“

KR enda í fjórða sæti en Óskar hefði viljað vera ofar í töflunni.

„Ég er ekkert sáttur með fjórða sætið. Við ætluðum okkur stærri hluti en fjórða sætið er það og við verðum bara að safna liði í vetur og gera betri hluti næsta sumar.“

 

Rúnar Kristinsson: Við munum berjast um titil á næstu leiktíð, ég get lofað þér því

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var fyrst og fremst ánægðu með evrópusætið.

„Ég er bara mjög ánægður með að við höfum tryggt okkur evrópusæti. Mér fannst við eiga það skilið og mér finnst við ekki svo langt frá þessum topp liðum þrátt fyrir að taflan segi annað, en það kemur á næstu leiktíð.“

Rúnari fannst KR ekki þora nægilega miklu í fyrri hálfleiknum.  

„Við þurftum bara aðeins að þora meiru. Við vorum svolítið stressaðir og þorðum ekki að spila. Við vorum svolítið að kýla boltanum fram, við vorum reyndar búnir að leggja það þannig upp og þeir fóru full mikið eftir mér. En það er ekkert neikvætt að farið sé eftir fyrirmælum þjálfarans. Það var bara smá sviðsskrekkur í mönnum og við róuðum okkur bara aðeins niður í seinni hálfleik og fórum að spila meira.“

Annað mark Víkings kom þvert gegn gangi leiksins og hleypti óþarfa spennu í leikinn í dag.

„Það kom upp úr engu. Á meðan að við vorum að bíða eftir að skora fjórða markið þá minnka þeir muninn í 2-3 og staðan í leik Stjörnunnar og FH var 0-1 ennþá þannig að við máttum ekki fá á okkur mark. En við breyttum litlu. Pössuðum okkur kannski að fara ekki með of marga leikmenn fram en ekki heldur að leggjast aftur neðarlega því að þeir eru með tvo stóra þarna frammi.“

Rúnar er sáttur með afrakstur tímabilsins.  

„Fjórða sætið er framar öllum spám fjölmiðla og við erum mjög ánægðir. Við vissum að við gætum verið þarna, langaði að klóra í efstu þrjú en við eigum fyllilega skilið að vera í fjórða sæti.“

„Við munum berjast um titil á næstu leiktíð, ég get lofað þér því.“ sagði Rúnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira