Innlent

Framlög til Sinfó og Þjóðleikhússins hækka

Atli Ísleifsson skrifar
Heildarframlag til Þjóðleikhússins verður rúmlega 1,534 milljónir.
Heildarframlag til Þjóðleikhússins verður rúmlega 1,534 milljónir. Vísir/Vilhelm
Fjárframlög til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins aukast um 270 milljónir samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 sem lagt var fram í dag.

Heildarframlag til Þjóðleikhússins verður rúmlega 1.534 milljónir en var samkvæmt síðasta fjárlagafrumvarpi rétt tæpir 1.493 milljarðar króna. Sinfóníuhljómsveitin fær 1.712 milljónir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en fékk á síðasta ári 1.481 milljónir.

Í frumvarpinu er fjármálaráðherra jafnframt gert heimilt að selja Maggini fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verja andvirðinu til kaupa á öðru hentugra hljóðfæri.

Þá segir að framlög til Hörpu hækki um 13 milljónir króna og verði 886 milljónir á næsta ári.

Heildarframlög til menningarstofnanna verða 5,2 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og hækka um rúmlega 200 milljónir króna á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×