Fótbolti

The Guardian: Er Víkingaklappið búið eða vantaði bara fyrirliðann Aron Einar?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, var fjarverandi vegna meiðsla.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, var fjarverandi vegna meiðsla. Vísir/Getty

Er þetta búið hjá Íslandi sem fótboltaþjóð? Eru hjólin farin undan bílnum? Er klappið dautt?

Þetta voru spurningar sem vöknuðu upp hjá Max Rushden, umsjónarmanni hlaðvarpsþáttarins Football Weekly á The Guardian, eftir samanlagt 9-0 tap íslenska landsliðsins gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni.

Football Weekly er eitt vinsælasta og verðlaunasta fótboltahlaðvarp heims en fjallað hefur verið reglulega um uppgang íslenska liðsins og íslenska boltans í því undanfarin ár.

Eftir tapið gegn Sviss síðastliðinn laugardaginn, sem var það stærsta hjá Íslandi í 17 ár, og stærsta tapið í mótsleik á heimavelli í fjórtán ár á móti Belgíu spurði Rushen sína menn hvort að þetta væri búið hjá Íslandi.

„Ákveðnu tímabili er svo sannarlega lokið hjá Íslandi. Þarna var þetta rosalegt þjálfarapar [Lars og Heimir] og svo hélt annar þeirra áfram með liðið. Mennirnir sem byggðu upp þetta lið eru farnir þannig að þá myndast stórt gat,“ segir franski blaðamaðurinn Philippe Auclair um úrslitin hjá íslenska liðinu.

Ekkert er farið sérstaklega yfir það í hlaðvarpinu að Íslandi hefur ekki unnið leik í rúmt ár eða síðan að farseðillinn á HM var tryggður í fyrra. Einblínt er á úrslitin í Þjóðadeildinni sem að Frakkanum finnst að einhverju leyti skiljanleg.

„Úrslitin eru því kannski skiljanleg og svo má ekki gleyma að Aron Gunnarsson var ekki með. Fyrirliðinn er mjög mikilvægur, sérstaklega í klefanum. Það er ansi mikið högg fyrir litla þjóð þegar að þjálfarinn hættir og fyrirliðinn er fjarverandi,“ segir Philippe Auclair.

Hlaðvarpsþáttinn má heyra hér með því að smella hér en umræðan um Ísland hefst á 29. mínútu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.